„Hefur áhrif á allt annað sem við gerum“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra á blaðamannfundi sem ríkisstjórnin hélt í þinghúsinu í gær vegna Grindavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það blasa við að sú staða sem upp sé komin í Grindavík hafi áhrif á allt annað sem stjórnvöld geri.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, hefur sagt að ástandið í Grindavík muni hafa áhrif á getu stjórnvalda til að koma til móts við kröfur breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði um aðkomu ríkisins að kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Leyfir sér að vera vongóð

Þórdís segir í samtali við mbl.is að stjórnvöld hafi undanfarnar vikur fundað með aðilum vinnumarkaðarins og eins hafi ríkisstjórn fundað stíft um þau mál sem önnur.

„Þessi staða sem upp er komin, mér finnst einhvern veginn blasa við að hún hefur áhrif á allt annað sem við gerum og það væri skrítið ef einhverjir ætluðu að vera ósammála því, það liggur finnst mér í augum uppi.

Það breytir ekki því að ábyrgir langtímasamningar eru gríðarlega verðmætir fyrir íslenskt samfélag; fyrir heimili, lítil fyrirtæki, meðalstór og stór fyrirtæki. Núna eru aðilar vinnumarkaðarins með málið hjá sér og á meðan erum við að vinna okkar megin.

Það liggur í augum uppi að þessi staða hefur áhrif á bæði getu ríkissjóðs og hvað getur talist skynsamlegt og ábyrgt í þeim efnum,“ segir Þórdís.

Segist hún ætla að leyfa sér að vera vongóð um að það takist að lenda málinu þar sem hún vilji trúa að öll þau stóru orð og sú skýra nálgun á að um sameiginlegt verkefni sé að ræða og þau yfirlýstu markmið séu markmið sem öll vilji ná og vísar þar til þess að ná tökum á verðbólgu og ná niður vaxtastigi.

Segist hún ætla að leyfa sér að trúa að það hafi ekki breyst, þrátt fyrir nýja stöðu nema síður sé og ekki heldur þrátt fyrir að það komi upp einhverjar hindranir í samskiptum á milli aðila vinnumarkaðarins.

Getum lært af sögunni

Þórdís segir okkur búa við hagkerfi sem hafi, sem betur fer, breyst mjög mikið undanfarin ár og áratugi. Aðgengi Íslands að fjármagni og hvernig við horfum til umheimsins sem og hvernig umheimurinn horfir til Íslands þegar kemur að verðmætasköpun, útflutningi og öllu slíku. Segir hún það jákvætt.

„Við höfum líka söguna til að læra af og getum rifjað upp hvað gerðist eftir gosið í Vestmannaeyjum. Ofan í það var auðvitað olíukreppa, offjárfesting í sjávarútvegi og aðrir þættir.

Við hljótum öll að vilja að gera þetta með sem ábyrgustum og skynsamlegustum hætti. Við vitum hvað ber að varast og það verður örugglega freistnivandi víða en við verðum bara að rísa undir þeirri ábyrgð og verðum að gera þetta eins og best verður á kosið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert