Krýsuvíkurkerfið vaknar til lífsins

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir alveg klárt að Krýsuvíkurkerfið, enn eitt eldstöðvakerfi Reykjanesskagans, hafi að undanförnu gefið merki um að það sé að fara í gang.

Úr því kerfi runnu einu hraunin sem nálgast hafa höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma, en það nær alla leið inn í út hverfi höfuðborg ar svæðis ins og sprung ur sam hliða kvikuinn skotum gætu einnig haft í för með sér tjón á innviðum.

Eldgos norðarlega í kerfinu gæti enn fremur leitt af sér hraun í átt að byggð í Hafnar f irði og Garðabæ.

„Það er búið að mæla ris og sig inni í Móhálsadal og á þessu svæði. Kerfið er klárlega að gera sig klárt,“ segir Ármann í Dagmálum í dag. Landris gefur til kynna að kvika sé að koma inn í kerfið.

Spurningin er hvenær?

„Það er náttúrulega bara ljóst, miðað við hvernig við þekkjum Reykjanesið, að það fer í gang. Spurningin er bara hvenær. Kemur það fljótt eða kemur það eftir 40 ár eða 100 ár? Fáum við að lifa það eða fá einhverjir aðrir lifa það?“ segir Ármann.

Getur virknin sem við erum að sjá núna hjálpað Krýsuvíkurkerfinu af stað?

„Já. Það eru komnar heilmiklar hreyfingar í Krýsuvíkurkerfið, það er fullt af skjálftum þar. Það eru litlar hreyfingar komnar í Bláfjallakerfið og Hengilinn og þær eru að mestu vestur af Bláfjöllum,“ segir Ármann.

„Nú er allt komið í gang“

Rétt rúm vika er liðin síðan hraun rann inn í Grindavíkurbæ. „Við vissum það þegar Reykjanesið byggðist upp og allir þessir þéttbýliskjarnar þar í kring að verið var að byggja á eldvirku svæði. Til að byrja með voru menn ekki með neina svakalega þekkingu á þessu og ekki að stressa sig á þessum hlutum. Nú er allt komið í gang og þá þurfum við að hugsa hvað við erum að gera og hvernig við viljum að byggðin sé. Og hvernig við ætlum að láta byggðina standast áhlaupið þegar það byrjar að gjósa og hraunin byrja að koma,“ segir Ármann.

Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesskaga og Suðurlandi þurfa að hans mati að fara yfir sínar skipulagsáætlanir. Það sé allt í lagi að skipuleggja á svæði sem geti skilgreinst sem áhættusvæði, en þá verði mótvægisaðgerðir að vera til staðar.

„Menn þurfa að vita í sjálfu sér hvaða hætta steðjar að. Þegar við erum komin í þetta ástand,“ segir Ármann. „Það má ekki vera þannig að þú situr úti í garði og bíður eftir að hraun komi í garðinn. Þú ert þá með einhver plön til að sporna við því.“

Ármann segir menn ekki geta setið í garðinum sínum og …
Ármann segir menn ekki geta setið í garðinum sínum og beðið eftir að hraun renni inn í hann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mótvægisaðgerðir væru þá leiðigarðar, varnargarðar og kortlagning á sprungum.

„Svo eru sprungur og sprungur. Ísland eðli sínu samkvæmt er mjög sprungið. Efri byggðir hér á höfuðborgarsvæðinu eru á sprungum og allt það. En þetta eru sprungur sem hafa ekki hreyft sig í nokkur þúsund ár. Við erum líka komin út í jaðarinn á gosbeltunum, svo við reiknum ekki með miklum siggengishreyfingum eða meiriháttar breytingum eins og sigdölunum sem myndast hafa í Grindvík,“ segir Ármann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert