Nýtt 6.000 fm rannsóknarhús við HR strax næsta ár

Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir …
Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ljósmynd/HR

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, veitti í dag Háskólanum í Reykjavík 200 milljóna króna fjárveitingu til að fjármagna undirbúning að uppbyggingu á allt að 6.000 fermetra rannsóknar- og nýsköpunarhús við skólann. Er áætlaður heildarkostnaður við bygginguna 3,7 til 4,6 milljarðar og er stefnt að stuttum framkvæmdatíma og að húsið getið orðið tilbúið strax á næsta ári.

Gert er ráð fyrir að húsið verði á næstu lóð við aðalbyggingu háskólans, við Menntasveit 4. Það er ein af lóðunum á milli skólans og flugvallarins, en í dag stendur lítil skemma á hluta lóðarinnar. Þar með verður húsið ekki beintengt við núverandi hús skólans.

Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að húsið eigi að vera lykillinn að frekari sókn HR í rannsóknum og kennslu í tæknigreinum og eigi að efla samstarf skólans við atvinnulífið.

Lóðin þar sem gert er ráð fyrir að nýtt rannsóknarhús …
Lóðin þar sem gert er ráð fyrir að nýtt rannsóknarhús rýs er Menntasveigur 4, eða þar sem rauði depillinn er. Er lóðin á milli núverandi húsnæðis HR og flugvallarins. Skjáskot/Borgarvefsjá


Gert er ráð fyrir að húsið verði samnýtt með sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum og stofnunum í tækniþróun og rannsóknum. Þannig er til dæmis gert ráð fyrir að áhersla verði lögð á aðstöðu fyrir öflugar byggingarannsóknir. 

Háskólinn í Reykjavík hefur verið mikill brautryðjandi í tæknigreinum og útskrifar yfir helming allra þeirra sem ljúka háskólaprófi í raunvísinda-, verkfræði- og tæknigreinum (STEM) hér á landi. Skólinn hefur metnað til að auka fjölbreytni námsins og bæta kennslu og rannsóknir. Til að svo megi verða þarf hann fjölbreyttara húsnæði. Ekki má heldur gleyma því að góðir háskólar eru forsenda öflugs atvinnulífs sem kallar eftir því að nemendum í tæknigreinum og verkfræði fjölgi. Við vitum að það vantar þúsundir sérfræðinga á því sviði næstu ár, ef vaxtaspár hugverkaiðnaðarins eiga að ná fram að ganga, og með sókn á þessu sviði verður auðveldara að mæta þessum þörfum,“ er haft eftir Áslaugu í tilkynningunni.

Þá er haft eftir Ragnhildi Helgadóttur, rektor HR, að verulega sé farið að þrengja að starfsemi skólans í dag og að nýtt rannsóknarhús muni gjörbylta allri aðstöðu til kennslu, rannsókna og nýsköpunar. „Okkur vantar sveigjanleg verkefnarými og nemendadrifin verkefni eins og smíði keppnisbíla og róbóta fengju stórbætta aðstöðu í slíku húsi. Við viljum hlúa betur að hagnýtu, verktengdu námi og skapa ný tækifæri, bæði hvað varðar þjálfun nemenda, gæði rannsókna og samstarf við atvinnulífið. Við fögnum því að ráðherra veiti verkefninu þennan stuðning því hann gerir okkur kleift að ljúka forhönnun hússins og í framhaldinu getur fasteignafélag skólans vonandi fjármagnað byggingaframkvæmdirnar sjálfar,“ er haft eftir henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert