„Ég sagði nú frá því á sunnudag að mér þætti dapurt að sjá einn hóp taka yfir Austurvöll með þeim hætti sem gert hefur verið núna í mjög langan tíma,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, spurð hvort ummæli Bjarna Benediktssonar á Facebook fyrir helgi gefi til kynna að tónn flokksins hafi færst lengra til hægri.
Í samtali við blaðamann mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag kveðst hún þó taka það skýrt fram að hún virði mjög lýðræðislegan rétt fólks til að mótmæla og segja sína skoðun.
„En ég geri athugasemd við það að einn hópur umfram annan tjaldi á Austurvelli, gisti þar og sé þar í fleiri vikur og þar með kannski hindri aðra hópa til að segja sína skoðun.“
Nú er ein af kröfum þeirra að fá fund með ráðherrum, þar á meðal þér. Hefur þú tekið til skoðunar að verða við þeirri beiðni hvað sem svörum við kröfum þeirra líði?
„Að sjálfsögðu. Ég fékk ekki formlega fundarbeiðni fyrr en rétt fyrir þarsíðustu helgi frá hópnum og ég hafði haft hug á því að koma þeim fundi á. Síðan bara verða atburðir af gríðarlega miklum skala, eldgos og náttúruhamfarir. En ef fólk óskar eftir fundi með mér þá reyni ég að sjálfsögðu að koma því við.“
Þannig þú sérð fram á að bregðast við beiðninni?
„Já ég hafði hugsað mér það.“
Önnur krafa mótmælenda sem lýtur að Útlendingastofnun – sem heyrir undir þitt ráðuneyti, er að láta af brottvísunum Palestínumanna. Hefur verið tekið til skoðunar að verða við þeirri kröfu að minnsta kosti tímabundið á meðan ástandið er eins og það er í heimalandi þeirra?
„Sko, mér hefur þótt misskilnings gæta í kröfum. Það hefur verið þannig í langan tíma hér á landi að samþykktarhlutfall þeirra einstaklinga sem sækja um vernd hér á landi og koma frá Palestínu, það er gríðarlega hátt. Ég hugsa að það sé hátt í 95 prósent eða eitthvað svoleiðis.
Hér eru allar umsóknir metnar eins, þær eru teknar til efnislegrar meðferðar og þeir Palestínumenn sem hafa þurft að fara frá Íslandi, hafa þar af leiðandi ekki uppfyllt þær forsendur sem að við leggjum til þegar við erum að taka afstöðu til hvort viðkomandi þarf á vernd að halda eða ekki. Þá er viðkomandi nær undantekningarlaust nú þegar kominn með vernd í öðru landi og hefur þar af leiðandi verið synjað.“
Kveðst Guðrún einnig vilja taka fram að nágrannalönd Íslands hafi ekki samþykkt fjölskyldusameiningar, sem Ísland hafi aftur á móti gert. Hún hafi frá því að hún steig inn í ráðuneytið lagt áherslu á að Ísland samræmi sig við hin Norðurlöndin í útlendingastefnu.
Ísland sé á pari við eða samþykki jafnvel fleiri umsóknir Palestínumanna um vernd en öll hin Norðurlöndin samanlagt.