Stjórnarmaður segir Ríkisútvarpið firra sig ábyrgð

Mörður fer hörðum orðum um Ríkisútvarpið.
Mörður fer hörðum orðum um Ríkisútvarpið. Samsett mynd

Mörður Áslaugarson, stjórnarmaður hjá Ríkisútvarpinu, segir stofnunina hafa ákveðið að firra sig allri ábyrgð hvað varðar þátttöku Íslands í Eurovision-keppninni.

Ákvörðun um hvort Ísland taki þátt í Eurovision í Malmö í Svíþjóð í vor verður tekin þegar Söngvakeppni sjónvarpsins hér heima er lokið. Verður lokaákvörðun um þátttökuna tekin í samráði við þann sem stendur uppi sem sigurvegari. Frá þessu greindi Stefán Eiríksson útvarpsstjóri í dag.

Er þetta gert vegna þátttöku Ísraels í Eurovision en hávært ákall hefur verið eftir því að Rúv taki ekki þátt í evrópsku keppninni í vor.

„Stórkostlegt“ útspil

Mörður segir þetta „stórkostlega“ útspil koma sér vel fyrir stjórnina og stjórnendur þar sem ábyrgðinni sé skellt á listafólk.

„Þeir sem verða brjálaðir út af niðurstöðunni, hver sem hún verður, munu beina bræði sinni að þessu listafólki en ekki að okkur,“ skrifar hann í færslu á Facebook.
Lýkur hann færsluna á því að nefna að einkunnarorð Rúv ættu að vera hugrekki, heilindi og ábyrgð.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert