Mörður Áslaugarson, stjórnarmaður hjá Ríkisútvarpinu, segir stofnunina hafa ákveðið að firra sig allri ábyrgð hvað varðar þátttöku Íslands í Eurovision-keppninni.
Ákvörðun um hvort Ísland taki þátt í Eurovision í Malmö í Svíþjóð í vor verður tekin þegar Söngvakeppni sjónvarpsins hér heima er lokið. Verður lokaákvörðun um þátttökuna tekin í samráði við þann sem stendur uppi sem sigurvegari. Frá þessu greindi Stefán Eiríksson útvarpsstjóri í dag.
Er þetta gert vegna þátttöku Ísraels í Eurovision en hávært ákall hefur verið eftir því að Rúv taki ekki þátt í evrópsku keppninni í vor.
Mörður segir þetta „stórkostlega“ útspil koma sér vel fyrir stjórnina og stjórnendur þar sem ábyrgðinni sé skellt á listafólk.