Tugir milljarða en ekki yfir 100 milljarða

Þórdís Kolbrún ræðir við erlenda sérfræðinga í aðgerðastjórn almannavarna í …
Þórdís Kolbrún ræðir við erlenda sérfræðinga í aðgerðastjórn almannavarna í Grindavík í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarumfang aðgerða stjórnvalda vegna óvissunnar í Grindavík liggur ekki fyrir þar sem útfærslan er ekki ákveðin.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að aðgerðirnar muni hafa áhrif á skuldir ríkissjóðs. Um tugi milljarða króna verði að ræða en ekki yfir 100 milljarða.

Nefnir 50 eða 60 milljarða

„Hvort það eru 50 eða 60 [milljarðar] liggur ekki fyrir, en þetta er alltaf mikið umfang. En við ráðum við það og það skiptir máli að vanda til verka og gera allt sem við getum til að lágmarka neikvæð áhrif af þessum aðgerðum á verðbólguþróun og –horfur, húsnæðismarkað, ríkissjóð og hagkerfið í heild sinni,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.

„Það er að mjög mörgu að huga og þess vegna verðum við að gefa okkur tíma til að gera þetta almennilega.“

Þú nefndir 50-60 milljarða, ertu þá að horfa til þess að fjárhæðin fari ekki yfir 100 milljarða?

„Ég geri ráð fyrir því að þessi hluti aðgerða og viðbrögð við þessari stöðu sem upp er komin fari ekki yfir 100 milljarða,“ segir Þórdís.

Hún segir ljóst að aðgerðirnar muni hafa áhrif á skuldir ríkissjóðs.

Rúm vika er liðin síðan hraun rann inn í Grindavíkurbæ. …
Rúm vika er liðin síðan hraun rann inn í Grindavíkurbæ. Mesta tjónið er þó af völdum aflögunar á jarðskorpunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ekki spurning hvað við þolum heldur hvernig við gerum þetta“

Þórdís segir að búið sé að vinna gríðarlega mikla vinnu í stjórnkerfinu og ráðuneytunum vegna aðgerðapakkans þannig að hægt verði að koma með frumvarp inn í þingið í byrjun febrúar. Hún segist vilja standa við þann tímaramma og segir að stjórnvöld muni leggja allt kapp á það.

Þá segir hún að formgert verði samráð með fulltrúum allra flokka á Alþingi sem vonandi mun bæði þétta vinnuna sem fram undan er og gera að verkum að hugsað verði fyrir hlutum sem annars kæmu síðar upp í málsmeðferðinni.

Um þol ríkissjóðs segir ráðherra að mjög sterkri stöðu hans hafi verið beitt í heimsfaraldrinum ekki aðeins til að milda höggið heldur einnig til að fjárfesta í því sem kom síðar svo hægt hafi verið að fara strax af stað. Segir hún að það hafi gengið vel til að mynda þegar kemur að ferðaþjónustunni en að út úr ríkissjóði hafi farið gríðarlegir fjármunir.

„Þetta er kannski ekki spurning hvað við þolum heldur hvernig við gerum þetta, hvað er ábyrgt og skynsamlegt að gera miðað við þá stöðu sem við erum í.“

Skuldum fólki að horfa til lengri tíma

Þar segir hún ríkisfjármálin eitt en þá skipti afkoma og skuldir máli sem og hvert fjármagnið verði sótt og á hvaða kjörum – bæði til skemmri tíma og einnig til millilangs og lengri tíma.

„Við skuldum fólki það að horfa til lengri tíma og þess vegna er það stundum aðeins snúið en gríðarlega mikilvægt að skapa sér svigrúm til að gera það – það er mín skylda. Þess vegna skiptir máli að þetta sé vandað og það sé hugsað til enda.

Náttúran gerir sitt og við ráðum ekki við það en við ráðum viðbrögðunum. Við erum að segja mjög skýrt að þegar 1% þjóðarinnar lendir í hamförum og stendur í mikilli óvissu að þá ætli hin 99% að bera það með þeim,“ segir Þórdís.

„Það er inn í ástand þar sem við erum að reyna að ná tökum á verðbólgu og þetta setur strik í reikninginn. Það liggur fyrir en þess þá heldur þurfum við að gera allt hvað við getum til að lágmarka neikvæð áhrif af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert