Forsendur breiðfylkingar stéttarfélaganna fyrir nýjum kjarasamningum ganga ekki upp komi ekki allir að borðinu eins og lagt var upp með í upphafi.
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, spurður hvaða áhrif ummæli Bjarna Benediktssonar, í Silfrinu, hafi á kröfur breiðfylkingarinnar í áframhaldandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.
„Það liggur alveg fyrir að forsendur þess sem við erum að gera í okkar kjaraviðræðum hafa beinst að því að allir taki þátt. Okkar uppstilling á þessu hefur miðast að því að tilfærslukerfin yrðu lagfærð, þannig að þetta var, við heyrðum hvað Bjarni sagði í gær, þannig er bara staðan,“ segir Vilhjálmur, sem kveðst ekki gera sér grein fyrir hvort Bjarni tali fyrir vilja ríkisstjórnarinnar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, kveðst binda vonir við að stjórnöld séu á þessum tímapunkti tilbúin að axla ábyrgð sína gagnvart vinnandi fólki í landinu. Segir hún tillögur breiðfylkingarinnar skynsamlegar og til þess fallnar að hafa góð áhrif á verðbólgu og vaxtastig í landinu.
„Eigi þessir samningar að ganga upp með þeim hætti sem við vonum að þeir sannarlega muni gera, sem að mun þá hafa þær afleiðingar að verðbólga lækkar og vaxtastig getur farið niður öllum til hagsbóta, þá er það algjört lykilatriði að stjórnvöld komi að borðinu,“ segir hún.
Aðspurð segir Sólveig breiðfylkinguna að sjálfsögðu koma til með að haga sér með öðrum hætti séu stjórnvöld ekki tilbúin að koma til móts við kröfur breiðfylkingarinnar. Hún ítrekar þó að kröfurnar séu sanngjarnar og snúist um að koma tilfærslukerfunum á þann stað sem þau voru árið 2013.