Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að samtökin séu að vinna af heilum hug að því að ná langtímakjarasamningi við breiðfylkingu stéttarfélaganna.
Samtök atvinnulífsins og breiðfylkingin funduðu í rúmar sex klukkustundir í dag og hefur annar fundur verið boðaður klukkan 13 á morgun.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfgreinasambands Íslands, sagði í samtali við mbl.is eftir fundinn að lítið sem ekkert hafi gerst á fundinum og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði að vonandi tækist samningsaðilum að komast upp úr hjólförunum sem viðræðurnar eru í. Bæði segja þau að boltinn sé hjá Samtökum atvinnulífsins.
„Frá okkar bæjardyrum séð þá skiptir mestu máli að við vöndum okkur við þetta verkefni sem við erum með í höndunum af því við ætlum okkur að gera skynsamlega langtímasamninga. Þegar þú ert í svoleiðis verkefni með skýr markmið um að þeir muni stuðla að því að verðbólga lækki þá þarf að horfa á mjög marga liði,“ segir Sigríður.
Sigríður segir að launaliðurinn hafi verið ræddur fram og til baka og svo séu aðrir þættir sem hafi áhrif þegar vinna sé í gangi við gerð langtímasamninga sem verði að taka samtal um.
Hún segir að það sé mjög mikilvægt að slíkt samtal sé tekið samhliða viðræðum um launaliðinn.
„Við erum í miðjum kjaraviðræðum og orðið segir það að við séum í viðræðum. Það þýðir að við erum að skiptast á skoðunum og takast á um þá þætti sem við erum að semja um.“
Ert þú enn þá bjartsýn á að það takist að landa samningum?
„Við erum að vinna af heilum hug að því að það geti gerst. Það er okkar skýra afstaða að það sé mjög mikilvægt að við náum langtímasamningum til þess að stuðla að fyrirsjáanleika og efnahagslegum stöðugleika. Það er ákall eftir því í þjóðfélaginu að okkur takist það og við munum leggja okkur öll fram um að það geti tekist,“ segir Sigríður Margrét.
Hún segir að ekki megi gleymast að verkefnið sé mjög metnaðarfullt. „Við erum að vinna eftir nýju vinnulagi þar sem við erum að setja okkur sameiginleg markmið.“
Sigríður segir að það sé verið að reika hagstærðir og að allir séu að vanda sig hvað það varðar. Hún segir að það sé ekkert óeðlilegt við það að það taki sinn tíma til að fara í gegnum ferlið.
„Vonandi mjakast málin áfram á morgun. Það er verkefnið okkar,“ segir Sigríður.