„Ber ekkert rosalega mikið á milli“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir það mikil vonbrigði að slitnað hafi upp úr kjaraviðræðum breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins.

Hann er þó þeirrar skoðunar að ekki beri svo mikið á milli samningsaðila.

„Þessi niðurstaða er mikil vonbrigði vegna þess að við höfum sýnt afar mikinn samningsvilja til þess að ná þessu saman og höfum lagt mjög mikið á okkur til þess að skapa þær forsendur sem þarf til að ná niður verðbólgu, vöxtum og öðru slíku. En eitt er víst að á endanum munum við klára kjarasamning hvenær sem það verður,“ segir Vilhjálmur við mbl.is.

Tilboðið lægra frá SA en áður

Hvað var það sem gerði útslagið – að þið ákváðuð að vísa deilunni til ríkissáttasemjara?

„Við erum búin að vera í þessari lotu frá 28. desember og það sem gerði útslagið var þetta gagntilboð sem fengum frá Samtökum atvinnulífsins. Tilboðið var lægra en SA hefur gert okkur áður. Það fannst okkur vera rosalega stórt skref afturábak sérstaklega í ljósi þess að við höfum verið að vonast til þess að við gætum teygt okkur í átt að hvort öðru,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur er þeirrar skoðunar að ekki beri neitt rosalega mikið á milli samningsaðila þótt vissulega séu forsenduákvæðum sem eigi eftir ræða og útfæra.

„Það er samt nóg sem ber á milli. Þegar þú ert að véla með lífsviðurværi fólks og ert að bjóða upp á hófstillta launahækkanir þá skiptir hver þúsundkall sem slík krafa er tekin niður verulega miklu máli fyrir okkar fólk.“

Kröfur geta breyst

Vilhjálmur segir að nú þurfi að fara yfir baklandið og hugsanlega geti kröfur breyst.

Hann segir mikilvægt að halda samstarfinu áfram því það sé mjög sterkt samband innan breiðfylkingarinnar sem skipti miklu máli.

„Við erum ekki komin á þann stað að stjórnvöld komi að samningaborðinu. Fyrst þurfum við og Samtök atvinnulífsins að ná saman áður en það samtal getur átt sér stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert