„Ekki rétt að SA hafi lagt fram lægra tilboð“

Frá fundi Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar í Karphúsinu.
Frá fundi Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar í Karphúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það ekki rétt að SA hafi lagt fram lægra tilboð en áður, eins og breiðfylking stéttafélaganna heldur fram í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í dag.

„Nú heldur samtalið bara áfram formlega á borði ríkissáttasemjara,“ segir Sigríður við mbl.is en breiðfylking stéttafélaganna ákvað eftir fund með Samtökum atvinnulífsins að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Steytir á aðferðafræði

Í yfirlýsingu breiðfylkingarinnar kemur fram að á samningafundinum í dag hafi SA lagt fram tilboð sem breiðfylkingin segir að feli í sér lægri launahækkanir en í áður framlögðu tilboði SA þann 17. janúar. Spurð hvort það sé rétt segir Sigríður:

„Það er einfaldlega ekki rétt að Samtök atvinnulífsins hafi lagt fram lægra tilboð. Þetta steytir bara á aðferðafræði við kostnaðarmat samninganna. Það er mismunur á aðferðafræðinni sem verið er að leggja upp með og ég held að það sé mikilvægt að hafa það í huga að það er búið að stíga stór skref í átt að breyttu vinnulagi við gerð kjarasamninga og við erum mjög þakklát breiðfylkingunni fyrir það.“

Eru reiðubúin að halda samtalinu áfram

Hún segir mikilvægt að hafa í huga að þótt viðræðurnar hafi ekki komist áfram þá séu Samtök atvinnulífsins reiðubúin til þess að halda samtalinu áfram enda sé mikið í húfi að vel takist til.

„Það skiptir öllu að launastefnan sem er mörkuð sé þannig hönnuð að hún stuðli að efnahagslegum stöðugleika og við höfum eindreginn vilja til þess að marka launastefnu í breiðri sátt sem mun halda.“

Kemur á óvart að vera í þessari stöðu

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasamband Íslands, er þeirrar skoðunar að ekki beri neitt rosalega mikið á milli samningsaðila. En hverju svarar Sigríður því. Er hún sömu skoðunar?

„Það kemur okkur á óvart að vera í þessari stöðu núna en á sama tíma vorum við í viðræðum hjá ríkissáttasemjara en nú fara þær í formlegt ferli.

Okkar vilji er óbreyttur. Við viljum gera langtíma kjarasamninga sem geta stuðlað að því að ná niður verðbólgunni og að þannig verði hægt að skapa skilyrði fyrir því að vextir lækki. Það skiptir mjög miklu máli að við sjáum fram á efnahagslegan stöðugleika. Það er ákall eftir því.“

Einlægur vilji að ná samkomulagi

Sigríður segir að verkefnið sé stórt og að allir þurfi að axla ábyrgð.

Hún segir að SA séu mjög þakklát aðildarfélögunum sem hafa stigið fram og sýnt fram á mikilvægi verkefnisins með stuðningi og muni fylgja vel eftir verðlækkunum. Það hafi sveitarfélögin gert líka og lýst mikilvægi þess að samningar náist á þeim nótum að gerðir verði skynsamlegir langtíma kjarasamningar.

Spurð hvort það séu ekki vonbrigði í herbúðum SA að breiðfylkingin hafi vísað kjaradeilunni til ríkissáttasemjara segir hún:

„Það er einlægur vilji okkar að ná samkomulagi og það er það sem við stefnum að. Við munum vinna hörðum höndum að því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert