„Erum furðu lostin“

Sólveig Anna Jónsdóttir í húsi ríkissáttasemjara.
Sólveig Anna Jónsdóttir í húsi ríkissáttasemjara. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég ætla ekki að neita því að við í breiðfylkingunni erum að upplífa gríðarleg vonbrigði og erum í raun furðu lostin að afstaða Samtaka atvinnulífsins hafi birst okkur með þeim hætti sem hún gerði í dag.“

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, við mbl.is.

Upp úr viðræðum breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins slitnaði í dag og hefur kjaradeilunni verið vísað til ríkissáttasemjara.

„Við höfðum bundið vonir við að við gætum komið hlutunum áleiðis í dag og komist upp úr hjólförunum en því miður gerðist hið þveröfuga,“ segir Sólveig Anna.

Í yfirlýsingu sem breiðfylkingin sendi frá sér eftir fundinn með SA í dag segir meðal annars:

„Á samningafundi í dag lögðu SA fram tilboð þar sem þau buðu lægri launahækkanir en í áður framlögðu tilboði þeirra frá 17. janúar sl. Slík framganga í kjaraviðræðum er fáheyrð og kallar á að aðilar endurskoði grundvallarnálgun sína.“

Undarlegur staður sem þetta samtal hefur verið fast í

Fannst þér undir það síðasta að það stefndi í þetta?

„Auðvitað var það svo í gær að við höfðum áhyggjur af því og þetta hefur verið undarlegur staður sem þetta samtal hefur verið fast í undanfarnar vikur og sérstaklega í ljósi þeirrar jákvæðni sem komið var áleiðis til okkar í upphafi samningaviðræðnanna,“ segir Sólveig Anna.

Hún segir að verkefnið sem menn standa frammi fyrir sé mjög stórt og mikilvægt og að sú leið sem breiðfylkingin hafi lagt upp með sé þannig útbúin að hún hafi ekki getað ímyndað sér að Samtök atvinnulífsins myndu á endanum ákveða að hafna hófstilltri nálgun breiðfylkingarinnar.

„Nú hefur kjaradeilunni verið vísað með formlegum hætti til ríkissáttasemjara og nú er það í hans verkahring að ákveða næsta fundartíma og boða aðila á fund,“ segir Sólveig Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert