Seinkun verður á flugferðum á vegum Play og Icelandair í fyrramálið sökum veðurs.
Flugi Play til Frankfurt á morgun hefur verið aflýst og flugi Icelandair til Nuuk í kvöld hefur verið frestað til morguns.
Gul viðvörun tekur gildi í nótt og verður fram á morgun víðast hvar um landið.
Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir að flugi frá Ameríku til Íslands muni seinka og þá einnig brottförum til Evrópu.
Flugi Play til Frankfurt hefur verið aflýst, eins og áður sagði, og flug Play til Tenerife sem átti að fara klukkan níu hefur verið fært til klukkan tvö.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir stöðuna svipaða þar.
Icelandair mun seinka „lítillega“ flugferðum frá Bandaríkjunum og Kanada til Íslands og munu þær vélar lenda um klukkan 6.30.
„Þá má gera ráð fyrir einhverjum seinkunum til Evrópu í kjölfarið,“ segir hún.
Þá hefur flugi Icelandair til Nuuk í kvöld verið frestað til morguns, en vél Icelandair átti að fljúga þangað í kvöld og snúa til baka í fyrramálið.
„Við biðjum bara farþega að fylgjast vel með.“