„Íbúar eru eðlilega argir yfir þessu“

Hildur spyr hvers vegna sorphirða er enn á vegum hins …
Hildur spyr hvers vegna sorphirða er enn á vegum hins opinbera. Samsett mynd

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir einsýnt að einkaframtakið sé betur til þess fallið að sinna sorphirðu í Reykjavík. 

Lagði flokkur hennar fram tillögu á borgarstjórnarfundi í gær um að hafinn verði undirbúningur rekstrarútboðs sorphirðu í Reykjavík. 

Nágrannasveitarfélögum gangi betur 

„Borgarbúar hafa fundið fyrir því á síðustu mánuðum hvað sorphirða hefur gengið illa,“ segir Hildur og bendir á að nýtt flokkunarkerfi hafi verið tekið í gagnið í sumar, sem útheimti 70 starfsmenn á vegum borgarinnar.

„Við sjáum að í nágrannasveitarfélögum hefur sorphirða gengið mun betur en í Reykjavík,“ segir Hildur.

Borgaryfirvöld hafi einsett sér að hirða sorp á þriggja vikna fresti í Reykjavík en nú sé sorp tekið á allt að 6 vikna fresti.

„Íbúar eru eðlilega argir yfir þessu. Þegar maður skoðar málið þá sést að sveitarfélög sem hafa boðið út sinn rekstur eru bæði með betri þjónustu og lægri gjaldskrár fyrir íbúa. Þau bjóða meira fyrir minna. Við höfum ítrekað lagt til að sorphirða verði boðin út í Reykjavík en tilefnið hefur aldrei verið eins ærið og akkurat núna,“ segir Hildur.

Vísað til umfjöllunar í borgarráði

Spurð hvort hún telji líklegt að tillagan nái framgöngu nú þegar nýr borgarstjóri er tekinn við segist hún ekki sérlega bjartsýn.

Tillögunni var vísað til áframhaldandi umfjöllunar í borgarráði en þar gegnir Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, formennsku. Hann hafi ekki verið hlynntur einkarekstri í málaflokknum hingað til.

Hún vonar þó að reynsla undanfarinna mánaða breyti afstöðu meirihlutans til málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert