Kársnesskóla skipt upp í tvo skóla

Frá Kársnessskóla við Vallargerði.
Frá Kársnessskóla við Vallargerði. Ljósmynd/Kópavogsbær

Kársnesskóla í Kópavogi verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025, samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn.

Lagt er til að skólanum verði skipt þannig að í húsnæði við Vallargerði verði 5.-10. bekkur og í nýrri skólabyggingu við Skólagerði verði 1.-4. bekkur, auk fjögurra deilda leikskóla, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Megin ástæða skiptingar skólans er fjölgun nemenda á Kársnesi. Undanfarin ár hefur nemendafjöldi skólans verið 600-700 og fyrirséð er að enn mun fjölga auk þess sem rekstur leikskólans í nýju húsnæði skólans við Skólagerði mun bætast við. Miðað við núverandi nemendafjölda verða um 430 nemendur í skólanum í Vallargerði en um 360 börn í leik- og grunnskóla í Skólagerði,” segir í tilkynningunni.

„Með því að skipta Kársnesskóla í tvo sjálfstæða skóla verður hægar um vik fyrir skólastjórnendur að hafa góða rekstrarlega og faglega yfirsýn yfir skólastarfið,“ er haft eftir Önnu Birnu Snæbjörnsdóttur, sviðsstjóra menntasviðs, í tilkynningunni.

Í Kópvogi hefur þegar verið farin þessi leið með skiptingu Hörðuvallaskóla í tvo skóla, Hörðuvallaskóla og Kóraskóla.

Stjórnendur Kársnesskóla hafa tekið þátt í samráði og undirbúningi vegna fyrirhugaðra breytinga. Á næstu vikum verður auglýst eftir nýjum skólastjórnendum sem munu leiða  faglegan undirbúning við þróun samrekins leik- og grunnskóla, sem er nýbreytni í skólastarfi í Kópavogi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert