Kröpp lægð í nótt sem er sérlega varasöm

Gul viðvörun tekur gildi klukkan 4 á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Gul viðvörun tekur gildi klukkan 4 á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Skjáskot/Veðurstofan

Gul viðvörun tekur gildi í nótt og verður fram á morgun víðast hvar um landið. Fólk er hvatt til að ganga frá lausamunum. 

Lægðin kemur upp að suðvestanverðu landinu í nótt og fer til norðurs skammt fyrir vestan land í fyrramálið.

Á veðurvef Bliku kemur fram að versta veðrið mun staldra stutt við, eða í um 3-4 klukkustundir.

Varasöm lægð

Á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Faxaflóa er spáð sunnan stormi, 18-25 metrar á sekúndu, frá klukkan 4 um nóttina. Á vef veðurstofunnar kemur fram að áætlað sé að klukkan 7.30 taki að lægja á höfuðborgarsvæðinu en klukkan 9 á Suðurlandi og Faxaflóa.

Á Vestfjörðum er spáð sunnanstormi, 18-25 metrar á sekúndu, með snörpum vindhviðum, hvassast á Snæfellsnesi, frá klukkan 8 til 15. Svipað er upp á teningnum á Austfjörðum og Norðurlandi Eystra, en þar gæti orðið eilítið hvassara.

„Lægðir eins og þessi eru sérlega varasamar. Ekki bara að þær séu krappar og hraðfara hér nærri, heldur fylgir þeim mikill sunnanstrengur sem fer yfir landið. Þá slær háloftaröstinni sér niður. Við slíkar aðstæður myndast gjarnan miklar bylgjur yfir hálendinu með vindstrengjum og sviptivindum,“ segir á vef Bliku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert