Óprúttnir aðilar hafa stundað það að skilja tannstöngla eftir við hurðarkarma og brjótast síðan inn ef tannstönglarnir eru enn á sínum stað þegar þeir snúa aftur.
Í nýlegri og nafnlausri facebookfærslu er talað um að þessi aðferðafræði hafi verið notuð í Árbænum. „Veit að þetta var gert á fleiri stöðum í nótt í 110. Vildi bara láta vita," segir m.a. í færslunni.
Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segist aðspurður kannast við slík mál í sínu umdæmi. Það sinnir m.a. verkefnum í Árbæ, Norðlingaholti, Grafarholti, Grafarvogi og Mosfellsbæ.
„Við erum með tvö svona tannstönglatilvik. Svo var farið inn í annað hús á okkar svæði en ég veit ekki hvort sömu aðferð var beitt þar,” greinir Valgarður frá.
Ekki hefur tekist að hafa hendur í hári þessara einstaklinga og kveðst Valgarður ekki vita hversu margir þeir eru. Hann nefnir að þeir hafi farið inn á öllum tímum sólarhringsins og nýjustu dæmin um þjófnaði sem þessa eru í einbýlishúsum.
Hann segir töluvert hafa verið um innbrot á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu en getur ekki staðfest að sömu brögðum hafi verið beitt annars staðar en í hans umdæmi.
Spurður hvort lögreglan hafi aukið viðbúnað sinn á einhvern hátt í tengslum við innbrotin segir hann að reynt sé að fylgjast betur með þeim stöðum þar sem þessir óprúttnu aðilar hafi sést eða nágrenni þeirra.
„Við viljum alls ekki að þessir kappar séu að fara inn í hús,” bætir hann við og segir það geta hjálpað lögreglunni ef þeir nást á eftirlitsmyndavélum heimila.
Hann segir þjófana helst stela skartgripum og öðrum verðmætum sem auðvelt er að fara með á brott.