„Á þeirra ábyrgð að koma með samningsviljann“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að breiðfylking stéttarfélaga muni funda saman á næstu dögum.

Hún telur að kröfurnar verði óbreyttar þegar næst verður fundað með Samtökum atvinnulífsins, þó hún vilji ekki ganga of langt í að fullyrða neitt í þeim efnum.

Eins og greint var frá í gær þá ákvað breiðfylk­ing stétt­ar­fé­laga að vísa kjara­deil­unni við SA til rík­is­sátta­semj­ara eft­ir að upp úr slitnaði í viðræðum samn­ingsaðila í Karp­hús­inu. Samn­ing­ar renna út eft­ir sjö daga.

Komast ekki upp úr hjólförunum

Spurð hvort að kjaraviðræðurnar séu í hnút segir hún að það séu atriði þar sem enn sé langt á milli deiluaðila.

„Ég auðvitað bind miklar vonir við það að Samtök atvinnulífsins átti sig á því að það er á þeirra ábyrgð að koma með samningsviljann með sér á næsta fund,“ segir Sólveig.

Líður þér eins og þau hafi ekki verið með mikinn samningsvilja hingað til?

„Samtalið hefur oft og tíðum gengið ágætlega, eins og allir vita líka, en því miður þá gerðist það á síðustu vikum að hlutirnir fóru á þennan stað og við komumst ekki upp úr þeim hjólförum sem við lentum í aftur.“

Ekki er vitað hvenær næsti fundur verður á milli Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingarinnar en það er undir ríkissáttasemjara komið.

„Ég bara vona að næst þegar við fundum þá verðum við komin á betri stað,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert