Aðalsteinn og Þórður Snær leita til ríkissaksóknara

Þórður Snær Júlíusson og Aðalsteinn Kjartansson.
Þórður Snær Júlíusson og Aðalsteinn Kjartansson. Samsett mynd

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Heimildinni, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, hafa kært þá ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um að hætta rannsókn á meintum hótunum Páls Steingrímssonar skipstjóra í þeirra garð.

Þeir Aðalsteinn og Þórður Snær, ásamt Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra, höfðu áður kært meintar hótanir Páls í sinn garð til lögreglu í september 2022. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu meðtók kærurnar en vísaði þeim síðar til Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Þar var málið rannsakað og látið niður falla undir lok síðasta ár. Aðalsteinn og Þórður Snær hafa sem fyrr segir kært þá ákvörðun til ríkissaksóknara. Ekki liggur fyrir hvort að Stefán hafi gert slíkt hið sama.

Aðilar máls hafa rétt á því að kæra þá ákvörðun til ríkissaksóknara, sem þeir Aðalsteinn og Þórður Snær hafa nú gert. Ríkissaksóknari hefur óskað eftir gögnum málsins ásamt rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun að fella málið niður, en embættinu ber að taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá móttöku hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka