Andlát: Alfreð Árnason

Alfreð Árnason
Alfreð Árnason

Alfreð Árnason erfðafræðingur lést 18. janúar síðastliðinn, 85 ára að aldri.

Alfreð fæddist 11. júní 1938 í Skálakoti undir Eyjafjöllum en fluttist að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum átta ára gamall. Foreldrar hans voru Lilja Ólafsdóttir, húsfreyja í Stóru-Mörk, og Árni Sæmundsson (kjörfaðir), hreppstjóri og bóndi í Stóru-Mörk.

Eftir landspróf í Skógum lá leiðin í Menntaskólann á Laugarvatni. Lauk Alfreð stúdentsprófi þaðan vorið 1959 og byrjaði að kenna við héraðsskólann á staðnum um haustið. Hann hóf nám í dýrafræði 1961 við háskólann í Belfast á Norður-Írlandi og lauk B.Sc.-gráðu vorið 1964. Var til sjós á sumrin frá Suðurnesjum og frá hausti 1964 til vors 1966 var Alfreð í M.Sc.-námi í lífefnafræðilegri erfðafræði við sama háskóla.

Haustið 1966 hóf Alfreð kennslu í náttúrufræði við Menntaskólann á Laugarvatni. Á sumrin var hann við rannsóknir í Glasgow í Skotlandi. Viðfangsefnin voru erfðafræðilegur samanburður á dýrum frá mismunandi svæðum. Alfreð fór að vinna við mannerfðafræði hjá erfðafræðinefnd Háskólans árið 1970. Árið 1973 lauk hann doktorsprófi í Glasgow. Doktorsritgerðin fjallaði um samanburð erfðamarka hagamúsa frá Íslandi, Noregi og Írlandi. Niðurstaða var að íslenska hagamúsin væri að öllum líkindum ættuð bæði frá Noregi og Írlandi.

Árið 1974 fór Alfreð svo til Birmingham á Englandi í postdoktorsnám í mannerfðafræði. Við heimkomu 1975 var stofnuð erfðarannsóknadeild Blóðbankans sem hann veitti forstöðu.

Rannsóknir á erfðasjúkdómum voru helstu verkefni Alfreðs. Ein merkilegasta uppgötun hans var stökkbreyting sem veldur arfgengri íslenskri heilablæðingu. Þetta var árið 1988. Þessi uppgötvun átti eftir að gjörbreyta greiningu á sjúkdómnum. Ári seinna tókst að sanna með sameindaerfðafræðilegum aðferðum tilvist svonefndra blendinga tveggja stærstu dýrategunda jarðar, steypireyðar og langreyðar.

Alfreð var formaður Rangæingafélagsins í Reykjavík 1980-1982, fulltrúi Íslands í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins 1987-1992 og sat lengi í stjórn Vísindafélags Íslendinga.

Eiginkona Alfreðs var Margrét Stefánsdóttir, d. 2023. Synir þeirra eru Stefán, f. 1961, Árni, f. 1966, og Eiður, f. 1972. Barnabörnin eru átta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert