„Djöfullinn býr alltaf í smáatriðunum“

Ekki er búið að ákveða hvenær næsti fundur verður.
Ekki er búið að ákveða hvenær næsti fundur verður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir að mikill ágreiningur sé uppi um ákveðin atriði í kjaraviðræðum breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins (SA). Hann kveðst þó hafa fengið til sín mál sem eru í töluvert meiri hnút en þessi deila.

Eins og greint var frá í gær þá ákvað breiðfylk­ing stéttarfélaga að vísa kjara­deil­unni við SA til rík­is­sátta­semj­ara eft­ir að upp úr slitnaði í viðræðum samn­ingsaðila í Karp­hús­inu. Samningar renna út eftir sjö daga.

Ástráður segir í samtali við mbl.is að lítið hafi breyst sem olli því að kjaraviðræður súrnuðu. Við fyrstu sýn virtist vera sem svo að allir væru á sama báti, en svo fór að koma á daginn á síðustu vikum að svo væri ekki alveg.

Lík markmið og svipuð sýn

Ástráður telur þó að enn sé fullt tilefni til jákvæðni. Segir hann báða aðila hafa mjög lík markmið sem og svipaða sýn á það hvernig „sé rétt að lenda málum“.

„En djöfullinn býr alltaf í smáatriðunum. Það er þannig að það eru atriði sem varða það hvernig eigi að hanna ýmis atriði í tengslum við gerð kjarasamningsins sem bara er mjög mikill ágreiningur um og þarf að halda áfram að vinna,“ segir Ástráður.

Hann segir enga ástæðu fyrir svartsýni að svo stöddu og er sjálfur bjartsýnn. Ekkert hefur verið ákveðið um það hvenær næsti fundur verður.

„Þetta bara vinnst þannig að núna tek ég stöðuna á aðilunum og ræði við þá um svona hvernig staðan sé og hver séu næstu skref. Svo tek ég ákvarðanir um fundarboðun í framhaldi af því,“ segir Ástráður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert