Tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson segir fáránlegt að Ríkisútvarpið ætli ekki að taka endanlega ákvörðun um þátttöku Íslands í Eurovision fyrr en búið er að krýna sigurvegara í Söngvakeppni sjónvarpsins. Hann kallar eftir að Rúv taki skýrari afstöðu.
„Við eigum ekki undir neinum kringumstæðum að halda þessa undankeppni ef við erum ekki búin að ákveða hvort að við ætlum að halda áfram,“ segir Magni spurður álits á útspili Rúv um að rjúfa tengsl milli Söngvakeppninnar og Eurovision.
Að sögn Magna er það illa gert að setja sigurvegara keppninnar í þá stöðu að taka ákvörðun um þátttöku í Eurovision eða ekki. Sérstaklega í ljósi þess að oftar en ekki er Söngvakeppni sjónvarpsins leið ungra listamanna til að koma sér á framfæri.
„Það er alveg galið að láta það vera á ábyrgð þeirra: „Viltu koma fram í Eurovision eða viltu taka ákvörðun fyrir þjóðina?“ Það er bara steik,“ segir Magni og bætir við:
„Ef ætlum ekki að taka þátt, í guðanna bænum ekki vera að vekja vonir hjá ungu fólki með því að láta það taka þátt í þessari undankeppni, ekki vera að þessu bölvaða hálfkáki.“
Magni segir að með þessu sé verið að stilla listamönnunum upp við vegg og biðja þá um að taka afstöðu fyrir heila þjóð. Því kallar hann eftir að Rúv taki skýrari afstöðu.
Aðspurður segir hann það út af fyrir sig algjörlega galið að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision. Það er þó eitthvað sem hann kveðst ekki ætla að reyna að skilja.
„Það er galið að þeim sé ekki sé bannað að vera með eins og Rússum, af hverju er svona mikill munur á þessu? Ég ætla heldur ekki að þykjast skilja það.“