Fleiri sprungur: Fresta því að hleypa inn í bæinn

Unnið að viðgerðum í Grindavík.
Unnið að viðgerðum í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til stóð að Grindvíkingar gætu lagt leið sína í Grindavík á morgun en af því verður ekki að sögn Víðis Reynissonar, sviðsstjóra almannavarna.

Vonir standa til að hægt verði að hleypa íbúum Grindavíkur inn í bæinn um helgina þar sem þeir geta hugað að húsum sínum, sótt búslóðir sínar eða hluta þeirra.

„Vinna stendur yfir á fullu í viðgerðum á sprungum í bænum og þá setti veðrið strik í reikninginn. Í þessari hláku sem kom opnuðust fleiri sprungur og einhverjar viðgerðir skoluðust til,“ segir Víðir við mbl.is.

„Á sama tíma erum við með þessa jarðsjárdróna sem fljúga yfir svæðið og skoða aðstæður og nú höfum við bætt þeim fjórða við.“

Raflínur hafa verið strengdar yfir nýtt og heitt hraunið.
Raflínur hafa verið strengdar yfir nýtt og heitt hraunið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skipta svæðinu upp í hólf

Hann segir að unnið sé eins hratt og hægt er. Nú sé til skoðunar að hleypa þeim íbúum sem búa vestan Víkurbrautar inn í bæinn um helgina.

„Við erum að skipta því svæði upp í hólf þannig að það verður hleypt inn í hvert hólf eftir ákveðnu skipulagi. Við reynum að gera það þannig að sem flestir sem eiga heimili vestan Víkurbrautar geti komist heim til sín eitthvað um helgina,“ segir Víðir.

Hann segir að á svæðinu austan Víkurbrautar eigi enn eftir að gera mikið við og það sé erfiðara og óöruggra svæði.

„Við erum með marga hópa sem vinna að viðgerðum í bænum. Við viljum hraða þessari vinnu eins og hægt en fyllsta öryggi er að sjálfsögðu gætt.“

Enn rýkur úr hrauninu sem rann við Grindavík.
Enn rýkur úr hrauninu sem rann við Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafa mestar áhyggjur af sprunguopnunum

Nú hefur heildarhættumat fyrir Grindavík verið fært niður um eitt stig. Hvers vegna er það gert?

„Það er fyrst og fremst vegna minnkandi eldgosahættu. Eins og staðan er núna þá telja vísindamenn að við séum í ákveðnu skjóli þangað til að kvikan verður búin að safnast eins mikið saman og fyrir síðasta gos. Þó svo að landrisið sé hratt þá höfum við einhvern tíma núna.“

Víðir segir að í hættumatinu sé sprunguopnun ennþá í hæsta flokki og af því hafi menn mestar áhyggjur varðandi öryggi fólks á svæðinu.

Vísindamenn telja enn talsverðar líkur á eldgosi á næstum vikum og segir Víðir að almannavarnir séu vel meðvitaðar um það geti gerst.

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert kalt vatn í bænum

„Þess vegna erum við að reyna að búa til þennan glugga eins hratt og hægt er, fyrir íbúa að komast inn í bæinn. Það stendur yfir vinna í öllum innviðum og það er mikil vinna í gangi varðandi hita og rafmagn. Það er kaldavatnslaust í bænum og það er stórt verkefni að koma því aftur á.“

Hann segir að pípulagningarmennirnir sem voru sendir inn í bæinn á vegum almannavarna hafi unnið kraftaverk við að koma hita á húsin í Grindavík og koma í veg fyrir vatn-og lagnatjón. Þeirra vinna hafi bjargað gríðarlegum verðmætum.

Um 70 manns voru að störfum við ýmis verkefni í …
Um 70 manns voru að störfum við ýmis verkefni í Grindavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hitablásarar í húsum án heits vatns

Fyrr í vikunni fór rafmagnið af öllum bænum eftir að stofnstrengur HS Veitna frá Svartsengi til Grindavíkur skemmdist. Í kjölfarið var reist loftlína yfir hraunið og segir Víðir að búið sé að koma rafmagni á öll hús í bænum.

„Það er ekki komið heitt vatn á öll húsin en það eru hitablásarar í þeim húsum sem ekki eru með heitt vatn eins og á hafnarsvæðinu. Þar eru miklar skemmdir á heitavatnslögninni þar og það mun taka lengri tíma til að koma henni i lag.“

Síðustu daga og vikur hafa iðnaðarmenn farið að minnsta kosti tvisvar inn í öll hús vestan Víkurbrautar og segja almannavarnir að reikna megi með að það sama eigi við um hús sem standa við götur austan megin við Víkurbrautina.

Reiknað er með að sú vinna gæti klárast bráðlega. Um 70 manns voru að störfum við ýmis verkefni í Grindavík í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert