Flýja heimili sín vegna hótana

Grímur segir útköll sérsveitar mörg og þeim fari fjölgandi milli …
Grímur segir útköll sérsveitar mörg og þeim fari fjölgandi milli ára. Lögregla meti það svo að það sé aukin harka í samfélaginu, og hægt sé að tala um undirheima í því samhengi. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Það hafa verið brögð að því að lögreglumenn hafa þurft að gista annars staðar en heima hjá sér vegna hótana sem þeir hafa fengið við störf sín,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar, spurður hvort lögreglukona hafi þurft að flýja heimili sitt í kjölfar líflátshótana.

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að lögreglukona hafi flúið heimili sitt eftir að hafa fengið líflátshótanir í sinn garð. Heimildir blaðsins herma að sá sem hótaði henni tengist skotárásinni í Úlfarsárdal í byrjun nóvember.

Oftar en einu sinni

Grímur vill ekki staðfesta orðróm um ákveðin mál í því samhengi, sem hann segir að séu afar viðkvæm, en vissulega hafi svona staða komið upp og oftar en einu sinni.

„Þegar starfsfólk fær svona hótanir bregst það mismunandi við, en vissulega eru þetta alvarleg mál og tekið á þeim sem slíkum,“ segir hann. „Það liggur fyrir að það var kveikt í bíl lögreglumanns í sumar, sem var talið tengjast starfi viðkomandi, og í desember var bíll annars lögreglumanns skemmdur, sem einnig var talið tengjast starfi hans í lögreglunni. Almennt séð get ég sagt að það eru brögð að því að það sé verið að hóta lögreglumönnum, beint og óbeint.“

Er eitthvað gert til að styðja lögreglumenn sem lenda í þessari stöðu?

„Ef það er staðfest að ákveðinn aðili sé að hóta starfsmanni lögreglunnar, þá er það brot á 106. gr. hegningarlaga, sem er brot gegn valdstjórninni. Þau mál eru rannsökuð hjá héraðssaksóknara,“ segir Grímur. „Við rannsökum þau ekki í embættunum.“

Aukin harka í samfélaginu

Spurður hvort ástandið sé stöðugt að versna í undirheimum landsins segir hann svo vera og ein birtingarmynd þess sé að lögreglumönnum sé hótað í auknum mæli. „Það liggur fyrir í gögnum lögreglu að það er mun oftar sem lögregla er að vopnast. Útköll sérsveitar eru mörg og fer fjölgandi milli ára, þannig að við metum það svo að það sé aukin harka í samfélaginu, og hægt að tala um undirheima í því samhengi.“

Lesa má nánar um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert