Heildarhættumat fyrir Grindavík hefur verið fært niður í appelsínugult, sem þýðir að töluverð hætta sé í bænum. Veðurstofa Ísland gaf út uppfært hættumat í dag og er þetta meðal helstu breytinga.
Í tilkynningu frá Veðurstofu er þó tekið fram að þó heildarhættumat fyrir Grindavík hafi verið fært niður um eitt stig, er hætta í tengslum við sprungur áfram metin mjög mikil.
„Það er hættan sem nú er kölluð „jarðfall ofan í sprungu“ og lýsir hættu sem gæti verið til staðar þar sem sprungur leynast undir ótraustu yfirborði sem gæti gefið sig,“ segir í tilkynningunni.
Ný GPS-gögn sýna að mjög lítil hreyfing hefur mælst innan Grindavíkur síðustu daga og þýðir það að hættumat í tengslum við sprunguhreyfingar innan hefur verið lækkað.
Hætta vegna sprunguhreyfinga er nú metin töluverð.