Matvöruverslunin Heimkaup, sem nýlega tilkynnti að hún hygðist taka þátt í samkeppni á lágvöruverðsmarkaði, sótti um einkarétt á vörumerkinu Prís hjá Hugverkastofu undir lok síðasta árs.
Vörumerkinu var þó hafnað, að því er fram kemur á vef Hugverkastofu.
Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni er ástæða höfnunarinnar sú að ekki var greitt fyrir umsóknina. Því fór hún aldrei til efnislegrar meðferðar en umsókn fellur úr gildi 30 dögum frá því hún var send inn.
Hjá Heimkaupum fengust þær upplýsingar að verið væri að skipta um bókhaldskerfi og því hefði greiðsla fallið á milli skips og bryggju.
Í umsókninni kemur fram að Heimkaup hyggist bjóða vörur undir hatti vörumerkisins sem og að hefja smásölu með matvæli og fleira.
Athygli vekur að ASÍ kynnti til sögunnar nýtt app sem ber sama nafn, Prís, undir lok síðasta árs. Hlutverk smáforrits ASÍ er að vakta verðlag í matvöruverslunum.
Heimkaup sendi sína umsókn til Hugverkastofu daginn eftir að ASÍ kynnti smáforrit sitt.
Auk þess að sækja um einkarétt á vörumerkinu Prís hafa Heimkaup tryggt sér veffangið prís.is. Er það með ritað með bókstafnum í en ekki i.
Eins og mbl.is fjallaði um í nóvember hyggjast Heimkaup fara í slag á lágvöruverðsmarkaði undir nýju vörumerki.
Í máli Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóra Heimkaupa, kom fram að hin nýja lágvöruverslun stefndi að því að reyna að opna verslun á nýrri staðsetningu fyrir páska.
Þá kom fram í tilkynningu frá samsteypunni Skel hf, sem meðal annars er eigandi Orkunnar, sem aftur er eigandi Heimkaupa, að félagið eigi í viðræðum við Samkaup um samruna við Orkuna og Heimkaup ehf. sem eru félög í samstæðu Skel hf.
Samkaup reka 64 matvöruverslanir víða um land um vörumerkjum Samkaupa, Nettó, Kjörbúðarinnar og Iceland.
Í tilkynningu frá Skel segir að undirrituð hafi verið viljayfirlýsing um að hefja könnunarviðræður vegna mögulegs samruna.
Árétting 10:50:
Vegna tæknilegra mistaka hjá Hugverkastofu var Heimkaupum hafnað um einkarétt á vörumerkinu Prís. Var það gert á þeim forsendum að reikningur fyrir umsókn hafi ekki verið greiddur.
Það reyndist hins vegar of snemmbúin höfnun. Hjá Hugverkastofu fengust þær upplýsingar að hið rétta sé að reikningurinn hafi ekki verið kominn á eindaga en vegna tæknilegra mistaka í tölvukerfi var hann felldur niður of snemma og þar með umsókninni sjálfkrafa hafnað hjá stofnuninni.