Land hefur risið um 8 millimetra á dag í Svartsengi á undanförnum dögum. Er það örlítið hraðar landris en mældist fyrir eldgosið 14. janúar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Þar segir enn fremur að erfitt sé að fullyrða um hversu mikið magn kviku hefur safnast fyrir frá því gosi lauk 16. janúar.
„Líklegt er að sá tími sem það tekur að ná sama kvikumagni og fyrir síðasta gos sé mældur í vikum frekar en dögum. Verið er að vinna reiknilíkön til að fá skýrari mynd af stöðu kvikusöfnunar,“ segir í tilkynningunni.
Skjálftavirknin á svæðinu er áfram væg og er mestmegnis í kringum Hagafell. Það má segja að skjálftavirknin sem mælist nú sé í takti við þá virkni sem sést hefur á svæðinu í kjölfar eldgosa.