„Margir bílar illa búnir til vetraraksturs“

Umferðin var með hægasta móti í höfuðborginni seinni partinn.
Umferðin var með hægasta móti í höfuðborginni seinni partinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það verður bara að segjast eins og er, að því miður eru margir bílar illa búnir til vetraraksturs,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is hefur fjallað um í dag var umferðarþunginn afar mikill síðdegis og talsvert mörg umferðaróhöpp urðu vegna mikillar hálku til dæmis í efri byggðum.

Umferð í Ártúnsbrekkunni um klukkan 18.45 í dag.
Umferð í Ártúnsbrekkunni um klukkan 18.45 í dag. Ljósmynd/Vegagerðin

Biður eigendur að hugsa sinn gang

„Þegar bílar eru á dekkjum sem duga illa í vetrarfærð þá myndast víða flöskuhálsar í umferðinni og þessir flöskuhálsar leysast ekki fyrr en tveimur til þremur tímum síðar. Við hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu biðlum því til eigenda ökutækja sem eru á lélegum dekkjum að hugsa sinn gang áður en þeir fara út í svona færð.“

Að sögn Árna var umferðin enn mjög þung víða á höfuðborgarsvæðinu undir klukkan sjö í kvöld. 

„Á Vesturlandsvegi er til dæmis bílaröð á 5 til 10 kílómetra hraða út í Mosfellsbæ.“ 

Ekki vitað um alvarleg slys á fólki

Ekki liggja fyrir tölur um fjölda umferðaróhappa síðdegis í dag en þau skipta tugum.

„Þetta er þungur eftirmiðdagur. Á milli klukkan 16 og 17 voru á fjórða tug umferðaróhappa tilkynnt til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Það gekk mikið á og umferðin var hæg og erfið. Það snjóaði töluvert á milli klukkan 15 og 17 sem þjappaðist þegar ökutæki keyrðu yfir,“ segir Kristján.

„Auk þess kólnaði nokkuð. Þau sem fóru ferða sinna á reiðhjólum eða fótgangandi lentu einnig í vandræðum á göngu- og hjólastígum,“ segir Árni og tekur fram að hann hafi ekki fengið fréttir af alvarlegum meiðslum vegna slysa í umferðinni í dag. 

„Það stendur upp úr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert