Salta og bíða færis til að komast í húsagötur

Öll tæki vetrarþjónustunnar voru úti á stofn-og tengibrautum í höfuðborginni …
Öll tæki vetrarþjónustunnar voru úti á stofn-og tengibrautum í höfuðborginni í dag og verða áfram í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var í nógu að snúast hjá starfsmönnum vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar í dag en mikla hálku gerði á höfuðborgarsvæðinu eftir að kólna fór í veðri eftir hádegi og í kjölfarið snjóaði talsvert.

„Við vorum búnir að fylgjast vel með veðurspánni og það var hasar í veðrinu í nótt. Við mönnuðum okkar stöðvar og vorum reiðubúnir hálkunni sem kæmi þegar það færi að kólna. Við forsöltuðum hluta af kerfinu okkar,“ segir Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs um umhirðu borgarlandsins, við mbl.is.

„Spár gerðu ráð fyrir éljum en svo tók að snjóa hressilega í rúman klukkutíma og það myndaðist gríðarleg hálka.“

Erfitt fyrir vinnutækin að komast leiðir sínar

Hjalti segir að erfitt hafi verið fyrir vinnutækin að komast leiðir sínar til að hálkuverja vegna umferðarinnar og ekki bætti úr skák þegar rafmagn fór af í miðborginni og fleiri nærliggjandi svæðum.

Umferðarljós hættu að virka á nokkrum stöðum og urðu af þeim sökum miklar tafir á umferðinni og þá varð fjöldinn allur af árekstrum.

„Það duttu nokkur mikilvæg umferðarljós út. Kerfið virkar þannig að ef rafmagninu slær út þá hætta umferðarljósin að virka. Um leið og rafmagnið kemur aftur á þá byrja ljósin að blikka á gulu en þau koma svo sjálfvirkt inn. Það er viðkvæmur rafeindaútbúnaður í þessum ljósum og straumsveiflur geta haft áhrif á hann. Stundum þurfum við að fylgjast með og handstýra ljósunum.“

Í síðasta lagi í fyrramálið

Öll tæki vetrarþjónustunnar voru úti á stofn-og tengibrautum í dag og segir Hjalti að menn hafi reynt að gera sitt besta að skafa götur og hálkuverja þær með því að salta.

„Við erum á fullu að salta og bíðum færis að komast inn í húsagöturnar. Það er mögulegt að við byrjum að skafa í þeim í kvöld en þá í síðasta lagi eldsnemma í fyrramálið,“ segir Hjalti.

Hjalti segir að nóg hafi verið að gera hjá vetrarþjónustunni í vetur þrátt fyrir að ekki hafi verið mikill snjór. Hann segir að farið hafi verið út nær daglega í hálkuvarnir.

„Fólk tekur eftir snjónum en tekur minna eftir því að bílarnir okkar og tækin eru úti allan daginn, á kvöldin og jafnvel um nætur að salta götur borgarinnar. Ef það kemur hálka þá rjúkum við af stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert