Sigríður: „Þau eiga mikið hrós skilið“

Búið er að vísa kjaraviðræðum til ríkissáttasemjari.
Búið er að vísa kjaraviðræðum til ríkissáttasemjari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), hyggst ekki taka afstöðu til þess hvort að Efling hafi gerst sek um trúnaðarbrest. Hún segir mikilvægt að gæta að trúnaði í kjaraviðræðum breiðfylkingar stéttarfélaga og SA og því sé ekki hægt að gefa það upp nákvæmlega hvar deiluaðilar eru ósammála.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, birti í gær myndband á vef Eflingar þar sem hún segir að breiðfylkingin hafi krafist þess að launahækkanir nýrra kjarasamninga myndu gilda afturvirkt frá 1. janúar, en að SA hafi viljað að þær giltu frá 1. febrúar.

Spurð að því hvort að þetta sér rétt kveðst Sigríður ekki geta staðfest það.

„Okkur finnst skipta máli að þegar við erum í jafn flóknu og viðkvæmu verkefni, eins og endurnýjun kjarasamninga er, að halda trúnaði við okkar viðsemjendur um þeirra hugmyndir og eins líka varðandi það hvaða hugmyndir við höfum verið að leggja á borðið,“ segir Sigríður.

En er þetta trúnaðarbrestur af hálfu Eflingar?

„Ég ætla ekki að taka einhverja sérstaka afstöðu til þess. Frá okkar bæjardyrum séð þá munum við sýna okkar viðsemjendum virðingu í gegnum þetta ferli. Það er mikilvægt að aðilar geti deilt hugmyndum um ýmsar útfærslur í gegnum svona flókið ferli,“ segir Sigríður.

Óljóst hvar deiluaðilar eru ósammála

Þegar viðræður hófust á milli breiðfylkingarinnar og SA undir lok desembers var gefin út sameiginleg yfirlýsing og virtist vera sem svo að allir væru á sömu línu í kjaraviðræðunum. Nú er hins vegar búið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

Spurð að því hvað hafi gerst þarna í millitíðinni sem olli því að viðræðunum var vísað til ríkissáttasemjara segir hún engan einn þátt útskýra það.

„Við erum auðvitað búin að vera í þessum viðræðum frá því í desember. Það að fara í gegnum svona verkefni, stilla upp langtímakjarasamningum, þar sem við erum með fjölbreyttan hóp viðsemjenda, það felur auðvitað það í sér að við erum í rauninni bara að fara í gegnum ákveðið ferli,“ segir Sigríður.

Hrósar breiðfylkingunni

Breiðfylkingin hefur ítrekað kallað kröfur sínar hófsamar og til þess fallnar að ná niður verðbólgu og vöxtum. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við mbl.is að báðir deiluaðilar væri með líka sýn og svipaða stefnu. Spurð að því hvort að kröfur breiðfylkingarinnar hafi verið hófsamar segir Sigríður:

„Ég ætla að hrósa viðsemjendum okkar fyrir það með hvaða hætti þau hafa nálgast þetta verkefni frá upphafi. Þau hafa komið til viðræðna við okkur með skýr markmið, sem er ákall um frá þjóðinni, og þau hafa líka komið til viðræðna við okkur og unnið eftir vinnulagi sem ekki hefur verið ástandið áður. Þannig þau eiga mikið hrós skilið fyrir það.“

Hún segir það enn vera markmið SA að hægt verði að skapa heildstæða stefnu sem skapi skilyrði fyrir því að verðbólga minnki og að vextir lækki.

„Þegar að við erum í verkefni eins og þessu, sem er auðvitað að gera langtímakjarasamninga, þar sem við erum með mjög skýr markmið um hver við viljum að áhrifin af samningunum séu, þá eru fjölmargir þættir sem þarf að fara yfir,“ segir Sigríður og nefnir launaliðinn, aðferðafræðina við launahækkanirnar, forsenduákvæði og önnur atriði sem snúa að samningunum.

Ekki búið að boða næsta fund

Eins og fyrr segir þá var ákveðið að vísa kjara­deil­unni til rík­is­sátta­semj­ara eft­ir að það slitnaði upp úr viðræðum samn­ingsaðila í Karp­hús­inu. Samn­ing­ar renna út eft­ir sjö daga.

„Viðræðurnar halda áfram, samtalið heldur áfram. Samtalið er bara núna formlega á borði ríkissáttasemjara en það var líka undir leiðsögn ríkissáttasemjara. Það var í raun sameiginleg ákvörðun okkar að fara í viðræðurnar með þeim hætti til þess að geta notið leiðsagnar hjá honum,“ segir Sigríður.

Ekki liggur fyrir hvenær deiluaðilar muni funda aftur með ríkissáttasemjara en Sigríður kveðst vonast til þess að fundur verði sem fyrst svo hægt verði að vinna verkefnið áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert