Svikahrapparnir ótrúlega glúrnir

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.
Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. mbl.is/Arnþór

Mikilvægt er að almenningur sé vakandi gagnvart svikatilraunum á netinu, enda fer þeim fjölgandi með degi hverjum.

Þetta segir Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, spurð út í nýlegt mál sem kom upp hjá Íslandsbanka þar sem um 30 viðskiptavinir lentu í því að kannast ekki við færslur á greiðslukortunum sínum.

Svikavakt bankans hafði samband við korthafana og frysti greiðslukortin þeirra.

Kemur fyrst og fremst að utan

Heiðrún kveðst ekki þekkja umrætt tilvik en segir svik sem þessi fyrst og fremst koma frá útlöndum. Endalaust sé verið að reyna að brjótast inn í kerfi.

Spurð hvort viðskiptavinirnir 30 hafi mögulega átt eitthvað sameiginlegt segir hún tilvikið gæti hafa verið handahófskennt eða að einstaklingarnir hafi verið inni á sömu vefsíðum. Erfitt sé þó að segja til um það.

Passa þarf upp á rafrænu skilríkin

„Það er almennt mjög mikið um svikatilraunir. Það þurfa allir að vera mjög með varann á. Við höfum sérstaklega varað við þegar er verið að reyna að brjótast inn í rafrænu skilríkin því þar með geturðu opnað fyrir einstaklinga,” segir Heiðrún.

Hvetur hún fólk einnig til að veita aldrei neinar upplýsingar, þar á meðal að opna rafrænu skilríkin, án þess að vita upp á hár hvað um er að ræða. Stundum virðist hlutirnir saklausir í fyrstu þangað til annað komi í ljós.

Útibú Íslandsbanka.
Útibú Íslandsbanka. mbl.is/Árni Sæberg

„Ekki láta ræna þig inni í stofu,” segir hún og vísar jafnframt á pistil sem hún skrifaði sem ber sams konar titil. Hún nefnir að fólk þurfi að passa upp á að láta ekki leiða sig áfram í ógöngur.

„Gamla góða reglan er að ef þetta tilboð virkar of gott til að vera satt, þá er rétt að staldra aðeins við.”

Bankarnir vakandi 

Heiðrún segir svikavarnir vera uppi í öllum bönkum í sérstökum öryggisdeildum þar sem starfsfólk sé mjög vakandi og tekst að stoppa greiðslur í mörgum tilvikum. Almenningur er til dæmis gabbaður til að fara inn á ákveðnar heimasíður og gefa upp kortanúmerin sín.

„En bankarnir eru vakandi yfir þessu og loka kortum en það er mikilvægt að almenningur sé vakandi.”

Einnig nefnir hún dæmi um börn sem setja á netið kortaupplýsingar foreldra sinna, til dæmis í tengslum við tölvuleiki. Sömuleiðis varar hún fólk við að fara ekki inn á greiðsluhlekki, t.d. vegna póstsendinga. Það sé þekkt svikaleið.

Svikatilraunum á netinu fer sífellt fjölgandi.
Svikatilraunum á netinu fer sífellt fjölgandi. AFP

Svikin sífellt trúverðugri 

„Þessir aðilar eru ótrúlega glúrnir og svikin eru alltaf að verða trúverðugri og trúverðugri í dag. Það er alltaf erfiðara að sjá í gegnum svikin,” segir hún og talar um að svikararnir noti betri íslensku en áður.

Að sögn Heiðrúnar hafa hin Norðurlöndin og þjóðir víða um heim verið að glíma við samskonar svikatilraunir. Samtök fjármálafyrirtækja hafa unnið með Seðlabanka Íslands, CERT-IS og fleiri aðilum til að stemma stigu við vandanum.

AFP

„Ef fólk verður vart við eitthvað sem veldur tortryggni eða verður óöruggt þá á það að hafa þegar samband við bankann sinn eða kortafyrirtæki og loka fyrir kort. Síðan er alltaf hægt að fá sér nýtt kort til öryggis, eða eftir atvikum að hafa samband við lögreglu þar sem við á,” bætir hún við.

Ekki hefur borist svar við fyrirspurn mbl.is til Íslandsbanka þar sem óskað var eftir nánari upplýsingum um málið sem kom þar upp á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert