Njord Wegge, prófessor við norska varnarmálaháskólann, segir að teikna þurfi varnarviðbrögð Norðurlandanna upp á nýtt. Nú þegar öll Norðurlöndin verði senn hluti af Atlantshafsbandalaginu.
„Það er nauðsynlegt að endurskoða allar varnaráætlanir. Landakortið lítur allt öðruvísi út þegar bæði Finnland og Svíþjóð eru orðnir bandalagsþjóðir í NATO. Það leikur enginn vafi á því að þetta er jákvæð þróun. Staðan er nú miklu styrkari, þar sem hægt verður að færa herafla yfir landsvæði, nokkuð sem lá ekki fyrir áður. Það var ekki hægt að ganga að því vísu að Svíþjóð og Finnland myndu opna landamæri sín fyrir herflutninga á ófriðartímum,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Wegge flytur í dag erindi um baráttu stórveldanna á Norðurslóðum á málþingi sem Varðberg heldur í Háskólanum á Akureyri í dag. Hann er spurður um hvert hann ætli hlutverk Norðurlandanna í vörnum Atlantshafsbandalagsins á Norðurslóðum.
„Norðurlöndin gegna lykil hlutverki. Hér eigum við heima og erum vön aðgerðum á svæðinu, sem reynist mörgum öðrum bandalagsþjóðum erfitt. Við varnir á Norðurslóðum er nauðsynlegt að hafa á að skipa hersveitum sem eru vanar loftslaginu, myrkrinu og hvernig flytja eigi hergögn á milli staða.“
Wegge vill ekki kannast við að Atlantshafsbandalagið hafi vanrækt varnir Norðurslóða í ljósi þess þunga sem settur hefur verið í varnir í austurhluta bandalagsins eftir innrás Rússa í Úkraínu.
„Ég held að skilningur hafi aukist á því eftir að Rússar yfirtóku Krím-skaga árið 2014 og svo aftur eftir innrás þeirra inn í Úkraínu 2022, að ekki sé hægt að útiloka vopnuð átök í Evrópu. Hitt er ljóst að eftir að bandalagsþjóðir hafa í nær tvo áratugi verið með hugann við hernaðaraðgerðir við eyðimerkuraðstæður, hvort sem er í Írak eða Afganistan, þá hefur ákveðin færni glatast. Ég tel að bæði Bandaríkin og Bretland átti sig nú á því að setja þurfi meiri áherslu á varnir á Norðurslóðum. Það er þó rétt að athygli manna er frekar á öðrum landssvæðum svo sem í Úkraínu og eins hafa ógnandi tilburðir Kínverja við nágranna sína á hafsvæðinu í kringum Kína valdið áhyggjum. Því myndi ég ekki segja að Norðurslóðir séu vanræktar, en vitaskuld eru þær ekki efst í forgangsröðinni.“
Hann bendir á að Norðurslóðir hafi fengið meiri athygli frá NATO undanfarin ár og nefnir hann í því samhengi sérstaklega æfinguna Trident Juncture árið 2018. Þá hafi herafli frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Hollandi reglulega komið til æfinga á Norðurslóðum.
Wegge er spurður um hvort varnarhagsmunir Norðurlanda séu samræmanlegir, þar sem sumir leggja megináherslu á öryggi í Eystrasalti en aðrir áhugasamari um varnir í Norður-Atlantshafi.
„Lega landa okkar er ólík og áherslurnar ólíkar. Því gæti reynst erfitt að samhæfa varnir. Bæði Finnland og Noregur deila landamærum með Rússlandi og eru því stutt frá herafla Rússa á Kólaskaga. Flestir íbúar beggja landa búa þó mun sunnar. Því getur reynst erfitt að ákveða hvar eigi að setja mesta þungann í varnir. Ég held að það sé ekki ómögulegt verkefni að samræma varnir Norðurlandaþjóða. Það hefur til dæmis gengið mjög vel að samhæfa aðgerðir loftherja Norðurlandanna, og hafa þeir verið í fararbroddi samvinnu. Ég held að nauðsynlegt sé að hugsa einhverja verkaskiptingu milli þjóðanna, komi í raun til átaka. Ég tel að það verkefni sé vel hægt að leysa og hef ekki miklar áhyggjur af því.“
Wegge er spurður að því hvort norrænt varnarsamstarf eins og NORDEFCO sé ekki búið að renna sitt skeið, nú þegar Norðurlandaþjóðirnar allar verða senn bandalagsþjóðir í NATO.
„Ég held að áherslurnar innan NORDEFCO muni breytast. Áherslan verði þar á minni aðgerðir og samhæfingu í hergagnaflutningum, viðhaldi hergagna, eða samhæfing um ákveðinn vopnabúnað. Ég nefni sem dæmi að ef Norðurlöndin samræmdust um notkun á ákveðnum skriðdreka megi ná fram ákveðinni hagræðingu. Ég tel þó að herstjórn NATO muni hafa allan forgang, enda getur hún tengt varnir Norðurlanda við viðbúnað Breta og Bandaríkjamanna.“