„Það stoppar allt þegar rafmagnið stoppar“

Á Hálsabraut í rafmagnsleysi.
Á Hálsabraut í rafmagnsleysi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem gerist í rauninni er að – í kjölfar þess að Suðurnesjalínu 1 leysti út, þá óskaði Landsnet eftir því við okkur að við myndum færa til álag í kerfinu okkar.“

Þetta segir Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður rafveitunnar hjá Veitum, um það rafmagnsleysi sem höfuðborgarbúar urðu margir varir við síðdegis í dag.

Mikil áhrif

„Þetta er aðgerð sem við gerum reglulega, en það sem gerist núna er að það verður útleysing og það leysir út heil aðveitustöð, sem þjónar mjög stóru svæði. Þannig að rafmagnið fer af [póstnúmeri] 101 og þeim stöðvum í næstu hverfum sem tengjast þessari aðveitustöð.“

Í samtali við mbl.is segir hann það ljóst að rafmagnsleysi sem þetta hafi mikil áhrif í nútímaumhverfinu.

„Það stoppar allt þegar rafmagnið stoppar. Sérstaklega í þessu veðri, með umferðarljósin og annað. Þannig að það er bara gott að þetta var fljótt.“

Tuttugu mínútur

Spurður hve lengi rafmagnsleysið hafi varað í borginni segir hann að rafmagni hafi slegið út kl. 15.56. Tuttugu mínútum seinna hafi allir verið komnir með rafmagn á ný.

„Þannig að þetta var tuttugu mínútna straumleysi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert