Verð á húsnæði mun sennilega hækka

Gylfi telur að verð á húsnæðismarkaði muni hækka.
Gylfi telur að verð á húsnæðismarkaði muni hækka. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Gylfi Zoega, pró­fess­or í hag­fræði við Há­skóla Íslands og fyrrverandi nefnd­armaður í pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabank­ans, segir í samtali við mbl.is að verð á húsnæðismarkaði muni til skamms tíma sennilega hækka vegna Grindvíkinga í leit að húsnæði.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra sagði í samtali við mbl.is að ekki lægi fyrir hversu mikill kostnaðurinn yrði fyrir ríkissjóð vegna aðgerðanna en nefndi þó töluna 50-60 milljarða króna.

Segir Gylfi að best væri að fjármagna aðgerðir ríkisins, vegna hamfaranna í Grindavík, að miklu leyti með lántöku á þessu ári fremur en að nota skattahækkanir eða niðurskurð til þess að mæta öllu tjóninu strax á þessu ári.

Þegar tjón verður þá segir hagfræðin, að hans sögn, að það eigi að dreifa áhrifum þess yfir nokkur ár og afla síðan ríkissjóði tekna yfir lengra tímabil. Atburðir af þessu tagi séu enda sjaldgæfir.

Einkaneysla ætti ekki að aukast

Varðandi það hvort að þessar aðgerðir geti haft áhrif á verðbólgu svarar Gylfi því til að áhrifin yrðu einkum á húsnæðismarkaði til skamms tíma og svo vegna aukins umfangs í byggingarstarfsemi til aðeins lengri tíma.

Áhrif á einkaneyslu yrði takmörkuð vegna þess að einungis væri verið að bæta fólki upp tjón, það yrði ekki betur sett en það var fyrir hamfarirnar. Áhrif á húsnæðislið verðvísitölunnar yrðu hins vegar tímabundin, þ.e.a.s. þangað til það væri búið að byggja nýtt húsnæði fyrir íbúana.

Áhrif á verðbólgu ekki augljós

„Eftirspurn íbúa Grindavíkur eftir öðrum vörum og þjónustu en húsnæði hefur ekki aukist, það er ekki verið að gefa þeim nein verðmæti. Íbúar Grindavíkur eiga þá bankainnistæðu í staðinn fyrir að eiga húsnæði. Almenn neyslueftirspurn hefur þá ekki aukist,“ segir Gylfi og bætir við:

„Kjarni máls er að það þarf að finna nýtt húsnæði. Ef aðgerð er fjármögnuð með innlendri lántöku ríkissjóðs þá fá aðrir innlendir aðilar minna fjármagn fyrir vikið sem mildar eftirspurnaráhrif aðgerðanna. Þannig eru almenn verðbólguáhrif, fyrir utan húsnæðisliðinn, ekki augljós.“

Eykur aðeins fyrirliggjandi vanda

Gylfi segir lítið um það rætt að á síðasta ári, alveg fram á fjórða ársfjórðung, fluttu um þúsund manns til landsins að jafnaði á hverjum mánuði umfram brottflutning. Það hafi verið litlu minna á árinu á undan og því séu hátt í 20.000 manns sem fluttu til landsins umfram brottflutta á síðustu tveimur árum sem hefur aukið eftirspurn eftir húsnæði.

Í þessu samhengi auki húsnæðisskortur Grindvíkinga aðeins á þann vanda sem var þegar fyrir hendi og kallaði á lausnir.

Til skamms tíma nefnir að hann að hægt væri að setja hömlur á útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna, eins og til dæmis Airbnb, eða auka framboð húsnæðis með nýbyggingum eins og gert var eftir gosið á Heimaey. Aukið framboð húsnæðis sé þó eina langtímalausnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert