Vill afhúða gullhúðað regluverkið

Langt var gengið við lög um lagningu raflína í jörð.
Langt var gengið við lög um lagningu raflína í jörð.

Svokallaðri „gullhúðun“ var beitt í 11 stjórnarfrumvörpum af 27 frumvörpum alls, þar sem Evróputilskipanir voru innleiddar í íslenskan rétt á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á tímabilinu 2010 til 2022, með þeim afleiðingum að regluverkið varð meira íþyngjandi en þörf var á.

Hugtakið gullhúðun vísar til þess þegar stjórnvöld ganga lengra og setja meira íþyngjandi ákvæði umfram þær lágmarkskröfur sem gerðar eru í EES-gerðum við innleiðingu þeirra í íslenskan rétt.

Kynnt í ríkisstjórn

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag sl. þar sem greint var frá niðurstöðu rannsóknar sem ráðuneytið fól Margréti Einarsdóttur, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, að gera, en það var gert í framhaldi af beiðni Diljár Mistar Einarsdóttur alþingismanns o.fl. þingmanna um skýrslu um málið.

Í minnisblaðinu segir að ekkert bendi til þess að slíkum tilfellum fari fækkandi, en á tímabilinu 2019 til 2022 var gullhúðun beitt í 4 innleiðingarfrumvörpum af 8 þar sem tilskipanir voru leiddar í lög.

Þörf á að bæta verklag

Þá kemur fram að ekki sé óheimilt að ganga lengra í innleiðingarlöggjöf en sem leiðir af lágmarkskröfum viðkomandi gerðar. Hins vegar á að tilgreina það sérstaklega og rökstyðja, en rannsóknin leiðir í ljós að misbrestur hafi orðið á því. Niðurstaða skýrslunnar er sú að þörf sé á að endurskoða og bæta verklag við meðferð innleiðingarfrumvarpa.

Í minnisblaðinu er vakin athygli á því að líklegt sé að gullhúðun sé ástunduð í öðrum ráðuneytum stjórnarráðsins, en tekið fram að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið muni bregðast við niðurstöðu skýrslunnar varðandi þau frumvörp sem virðast gullhúðuð, með því að setja strax af stað vinnu við að endurskoða innleiðingu á EES-gerðum í löggjöf um mat á umhverfisáhrifum. Markmiðið sé að leggja fram frumvarp til að færa löggjöfina að EES-gerðum, þ.e. nær því sem gerist í ESB þannig að regluverkið hérlendis sé ekki meira íþyngjandi en þar.

Of langt gengið

„Það sem veldur mestum vonbrigðum er það að þrátt fyrir að árið 2018 hafi verið ákveðið af þinginu að ganga þannig fram að skýrt væri hvenær menn væru að ganga lengra í innleiðingum en nauðsyn bar til, þá hefur það ekki gengið eftir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson í samtali við Morgunblaðið.

Spurður hvort eitthvert mat hafi verið lagt á þann aukna kostnað sem gullhúðun regluverks á málefnasviði ráðuneytisins hefur í för með sér, segir Guðlaugur að það hafi ekki verið gert.

„En það sem við ætlum að fara að gera er að afhúða regluverkið,“ segir Guðlaugur og bætir við að fyrst verði farið í endurskoðun á löggjöf um mat á umhverfisáhrifum.

Lesa má nán­ar um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert