77% þjóðarinnar vilja engan af þeim forsetaframbjóðendum sem þegar hafa boðið sig fram til forseta Íslands. Flestir vilja þó Sigríði Sigríði Hrund Pétursdóttur, fjárfesti og fyrrverandi forseta Félags kvenna í atvinnulífinu, eða 8% svarenda.
Þetta kemur fram í netkönnun Prósents sem framkvæmd var dagana 16.-24. janúar. Tvær spurningar voru lagðar fyrir í könnuninni. Annars vegar var spurt opinnar spurningar um hvern svarendur vildu að yrði næsti forseti Íslands. Hins vegar var spurt um viðhorf til þeirra einstaklinga sem þegar hafa tilkynnt um framboð sitt.
Fimm einstaklingar hafa þegar tilkynnt um framboð sitt. Ljóst er að 77% þjóðarinnar vilja engan af þeim frambjóðendum. Mest fylgi hefur Sigríður sem fékk 8% svara, þar næst Arnar Þór Jónsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fékk 6%.
Loks er það Tómas Logi Hallgrímsson björgunarsveitarmaður sem fékk 5% svara, Ástþór Magnússon, viðskiptamaður og fyrrum forsetaframbjóðandi, var með 3% og Axel Pétur Axelsson, þjóðfélagsverkfræðingur, með 1%.
Í svörum við opnu spurningunni má sjá að margir vilja að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, bjóði sig aftur fram, eða 9% svarenda. Þá vilja 4% svarenda að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bjóði sig fram og 3% að Halla Tómasdóttir, forstjóri B team og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, bjóði sig fram.
Öll hafa þau tilkynnt að þau hafi ekki í hyggju að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Það gerði Guðni í nýársávarpi sínu þegar hann kvaðst ekki gefa kost á sér til embættis forseta á ný. Þann sama dag sagðist Katrín brenna fyrir því sem hún gerir og því hefði hún ekki hugsað sér til hreyfings.
Halla er því sú eina sem enn kemur til greina því hún sagðist ætla að gefa sér tíma til að hugsa málið vandlega. Það skrifaði hún í Facebook-færslu í byrjun janúar, þar sem hún sagðist ekkert hafa velt forsetaframboði fyrir sér.