Engin ákvörðun „um að fresta einu eða neinu“

Sigurður Ingi segir mikilvægt að vera ávallt á tánum.
Sigurður Ingi segir mikilvægt að vera ávallt á tánum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir ekki hafa verið tekna ákvörðun innan ríkisstjórnarinnar um að fresta fyrirhuguðum aðgerðum eða framkvæmdum, til að standa undir stuðningi til Grindvíkinga. 

Þetta sagði hann að loknum ríkisstjórnarfundi í ráðherrabústaðnum nú rétt fyrir hádegi spurður hvort umferðaruppbygging fari aftarlega á listann í ljósi þeirrar neyðar sem nú er í Grindavík. 

„Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að fresta einu eða neinu. Þess vegna þurfum við að vera klár í þá uppbyggingu sem við þurfum að fara í til að standa undir allskonar hlutum sem að geta verið áfallnir af völdum náttúrunnar.“

Stórkostlegir hlutir gerst á síðustu árum 

Maður var hugsi eftir gærdaginn varðandi innviði, þar sem smá veður og ein elding setti allt úr skorðum. Maður bæði hugsar til Grindavíkur og hversu greiðlega gekk að rýma grindavík á sínum tíma, en á sama tíma hugsar maður með hryllingi til þess hvernig ætti að rýma höfuðborgarsvæðið ef að neyð steðjar að. 

„Við fórum gríðarlega vel í gegnum öll kerfi eftir óveðrið 10 desember 2019. Í kjölfarið hafa gerst stórkostlegir hlutir, við getum til að mynda horft til þess að fjarskipti hafa verið í góðu lagi meira og minna á Suðurnesjum sem ég er ekkert viss um að hefð verið fyrir fimm, sex árum,“ segir Sigurður og heldur áfram: 

„Það er alveg rétt og margir hafa bent á það, og ég líka, að flóttaleiðir af höfuðborgarsvæðinu er erfiðar. Sundabraut er ein af þeim viðbrigðum sem ég hef horft til að þurfi að verða og við sjáum það náttúrulega bara á umferðinni þessa dagana að hún er þung við svona aðstæður. En þetta sýnir líka að öll mannanna kerfi eru viðkvæm fyrir náttúrunni,“ segir hann og ítrekar mikilvægi þess að vera ávallt á tánum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert