Kjaraviðræður fagfélaga og SA „mjakast áfram“

Kristján Þórður segir kjaraviðræðurnar við SA mjakast áfram.
Kristján Þórður segir kjaraviðræðurnar við SA mjakast áfram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fagfélögin og Samtök atvinnulífsins (SA) funda í dag klukkan 15 í Karphúsinu með ríkissáttasemjara. Reynt verður að klára nýja samninga áður en þeir eldri renna út um mánaðamótin.

Þetta segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ), í samtali við mbl.is.

Síðasti formlegi fundurinn var á þriðjudaginn og hefur verið unnið á milli funda í starfshópum. Fag­fé­lögin sem um ræðir semja fyrir 70% iðn- og tækni­fólks á al­menn­um vinnu­markaði á Íslandi.

Tíminn flýgur frá mönnum

„Þetta hefur verið ágætis samtal. Þó að við höfum vísað til sáttasemjara þá er það auðvitað bara til að búa til pressuna og reyna fá svörin,“ segir Kristján og bætir við:

„Þetta mjakast áfram en maður veit meira á eftir.“

Eins og fyrr segir þá renna samningarnir út um mánaðamótin og því verða félagsmenn samningslausir þann 1. febrúar ef ekki verður samið á næstu dögum.

„Auðvitað höfum við haft þá stefnu að ná að endurnýja samninga þannig að samningur taki við af samningi. Við erum auðvitað í þessu á þeim nótum að tryggja að svo verði. En tíminn hins vegar flýgur, þetta er stuttur tími fram undan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert