Rafmagnsleysið ekki tengt orkuskorti

Ástand skapaðist í gær vegna þess að umferðarljós hættu að …
Ástand skapaðist í gær vegna þess að umferðarljós hættu að virka á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Olli það umferðartöfum víða auk fjölda árekstra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmenn Veitna vinna nú hörðum höndum að því að greina hvað það var sem olli því að heil aðveitustöð leysti út í gær með þeim afleiðingum að rafmagn fór af hluta höfuðborgarsvæðisins. Þó er ljóst að rafmagnsleysið varð ekki vegna orkuskorts. 

Þetta seg­ir Jó­hann­es Þor­leiks­son, for­stöðumaður raf­veit­unn­ar hjá Veit­um, spurður hvort vitað sé hvað olli rafmagnsleysinu í gær. 

„Við misstum samband við fjarstýringu við þessa stöð, þannig að við gátum ekki stýrt aðveitustöðinni úr stjórnstöð,“ segir Jóhannes en útskýrir að ekki sé ljóst hvað það var sem olli sambandsleysi stjórnstöðvarinnar við aðveitustöðina. 

Vinna að því að fara yfir kerfin

Aðdraganda rafmagnsleysisins má lýsa sem svo að truflun varð í kerfi Landsnets þegar Suðurnesjalínan fór út. Að sögn Jóhannesar brugðust Veitur við með því að færa til álag innan kerfis þeirra til að jafna álagið á þeim línum sem færa rafmagn frá Landsneti inn á svæði Veitna. 

Aðspurður segir hann kerfið vel ráða við slíkar tilfæringar og áréttar að um sé að ræða framkvæmd sem oft hefur verið farið í. Hins vegar þurfi að fara yfir ákveðna hluti, enda hafi Veitur ekki lent í bilun sem þessari áður. 

„Það er eitthvað sem við þurfum að fara yfir, þetta er flókinn stjórn- og varnarbúnaður með allskonar nemum, skynjurum og forritum, þannig að við þurfum í raun að fara yfir hvað er að valda. Við erum með upptökur af því hvernig rafmagnið er að flæða og getum þá greint í kjölfarið hvað það er sem gerðist,“ útskýrir Jóhannes. 

Þannig að þið þurfið ekki að fara í einhverjar stórvægilegar aðgerðir? 

„Nei ekki á þessari stundu. Það gæti verið einhver bilaður nemi sem við þurfum að skipta út en um leið og svona gerist þá skoðum við allan búnað og alla stöðina og sjáum hvort við þurfum að gera úrbætur þarna eða annar staðar í kerfinu.“ 

Áreiðanleikinn verður ennþá mikilvægari

Í nútímaheimi stjórnast afar margt af rafmagni og segir Jóhannes líklegt að rafmagnið verði enn mikilvægara á næstu árum. Samhliða því segir hann ljóst að gerð verði meiri krafa á Veitur varðandi áreiðanleikann í kerfinu. 

„Þó hann sé góður í dag og við náttúrulega þekkjum ekkert svona atburði, þá verður það enn þá mikilvægara,“ segir Jóhannes og bætir við: 

„Um leið og rafmagnið fer þá stöðvast hleðsla, umferðarljós, götuljós, hitakerfi í húsum eiga það til að stoppa og fólk getur fests í lyftum,“ segir Jóhannes en ástand skapaðist í gær vegna þess að umferðarljós hættu að virka á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Olli það umferðartöfum víða auk fjölda árekstra. 

Snýst ekkert um orkuskort

Spurður hvort hægt sé að rekja atburð gærdagsins til umrædds orkuskorts segir Jóhannes rafmagnsleysi gærdagsins ekki tengjast orkuskorti á nokkurn hátt. 

„Þetta tengist ekkert. Rafmagnsframleiðsla og orkunotkun var í jafnvægi á þessum tímapunkti. Við vorum bara að færa til álag innan okkar kerfis til þess að jafna álagið á línunum sem eru að færa rafmagnið frá Landsneti og inn á okkar svæði. Þetta snýst ekki um orkuskort í sjálfu sér.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert