Reykjanesbraut er lokuð í báðar áttir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Mjög slæmt skyggni er á Reykjanesbraut og slæm færð samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
„Vegfarendur á svæðinu eru beðnir um að sýna aðgát. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Vegfarandi um Reykjanesbrautina gegnum Hafnarfjörð og Kópavog sem mbl.is ræddi við sagði að staðan í umferðinni væri „bara galin“. Það sjáist ekki á milli bíla, umferðin sé á um tíu kílómetra hraða og bílar séu stopp hingað og þangað.
Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild lögreglu, segir í samtali við mbl.is að sem betur fer hafi meginþungi umferðar verið kominn til vinnu þegar skyggni tók að versna um níuleytið í morgun.
Fram að því segir hann að umferðin hafi gengið bærilega. Segir hann að engin umferðartengd atvik hafi verið tilkynnt lögreglu enn sem komið er.
Aðstæður á götunum eru alls ekki góðar en auk slæms skyggnis er fljúgandi hálka víða og töluvert hefur verið um óhöpp í umferðinni.
mbl.is sló á þráðinn til Kristjáns Kristjánssonar, framkvæmdastjóra áreksturs.is. Kristján hafði í nægu að snúast, var á vettvangi áreksturs, með fólk í bílnum og hafði engin tök á ræða við blaðamann.
Ástæða er til að brýna fyrir fólki að fara varlega í umferðinni svo það komist áfallalaust inn í helgina.
Fréttin hefur verið uppfærð.