„Vinnan gengur frekar hægt“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ástæðan fyrir því að við höfum tekið þá ákvörðun að hleypa hvorki íbúum né fyrirtækjum inn í Grindavík um helgina er með hliðsjón af veðri og töfum á mati á vegum og viðgerðum.“

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is, en vonir stóðu til að geta hleypt Grindvíkingum inn í bæinn um helgina til að huga að eignum sínum, athuga með skemmdir og sækja nauðsynjar.

„Vinnan í bænum gengur frekar hægt en þetta mjakast allt áfram. Það er búið að vera leiðindaveður í dag sem hefur ekki hjálpað til. Við munum meta stöðuna um helgina varðandi aðgengi íbúa og fyrirtækja en það alveg ljós að þessir aðilar komast ekki inn í bæinn um helgina,“ segir Úlfar.

Jarðvegurinn afar ótryggur

Heildarhættumat fyrir Grindavík var í gær fært niður um eitt stig en hættumat varðandi sprunguopnun er ennþá í hæsta flokki.

„Jarðvegurinn er afar ótryggur og Grindavík er ennþá hættulegur staður til að vera í,“ segir Úlfar.

Úlfar nefnir að pípulagningamenn hafi verið að störfum í Grindavík síðustu daga og sú vinna hafi gengið vel en rafmagn og hiti er kominn á flest hús í bænum. Hann segist ekki hafa vitneskju um að einhver óhöpp hafi átti sér stað vegna þeirrar vinnu sem hefur verið í gangi í bænum.

„Vinnan heldur áfram um helgina að skipuleggja framkvæmdina sem framundan er þannig að íbúar fái jöfn tækifæri til að huga að eigum sínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert