Gerir ráð fyrir viðbrögðum: „Sláandi fréttir, ef satt reynist“

Diljá tekur fram að Ísland sé í hópi hæstu framlagsríkja …
Diljá tekur fram að Ísland sé í hópi hæstu framlagsríkja til UNRWA með tilliti til höfðatölu. mbl.is/Hákon Pálsson

Dilja Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar þingsins, gerir ráð fyrir viðbrögðum frá Íslandi og að kallað verði eftir nánari upplýsingum, í kjölfar þeirra fregna að starfsmenn UNRWA-stofnunarinnar innan Sameinuðu þjóðanna liggja undir grun um aðild að árás Hamas á Ísrael þann 7. október.

Diljá segir að umræður og ásakanir í garð stofnunarinnar eigi sér lengri sögu og vísar til þess að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem grunsemdir vakna um tengsl hennar við Hamas. 

Morgunblaðið greindi frá því á síðasta ári að lítið eftirlit væri með því fé sem færi frá landinu til stofnunarinnar, sem hefur legið undir ámæli fyrir spillingu og tengsl við Hamas. 

Ísland í hópi helstu framlagsríkja miðað við höfðatölu

Diljá tekur fram að Ísland sé í hópi hæstu framlagsríkja til UNRWA með tilliti til höfðatölu og að um sé að ræða helstu samvinnustofnun Íslendinga í Palestínu.

„Þetta eru sláandi fréttir, ef satt reynist,“ segir hún og kveðst gera ráð fyrir því að Ísland muni bregðast við tíðindunum.

Íslenska ríkið muni þá væntanlega stilla saman strengi við hin Norðurlöndin og aðrar vinaþjóðir í Evrópu um hvernig sé best að bregðast við fregnunum.

Bandaríkin, Ástr­al­ía og Kan­ada eru á meðal þeirra ríkja sem þegar hafa þegar fryst fjár­veit­ing­ar til stofn­un­arinnar, en yfirlýst markmið hennar er að aðstoða Palestínumenn.

Bandaríkin hafa til þessa veitt mestu fjármagni til stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert