Háar fjárhæðir undir í MÍR-málinu

Ragnhildur Rósa Þórarinsdóttir þegar MÍR-málið var tekið fyrir í Héraðsdómi …
Ragnhildur Rósa Þórarinsdóttir þegar MÍR-málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. mbl.is/Árni Sæberg

​Málflutningur fór fram í MÍR-málinu svokallaða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Mikla athygli vakti þegar málið kom upp á síðasta ári en eins og kom fram í Morgunblaðinu höfðuðu þrír félagsmenn í MÍR, Menningartengslum Íslands og Rússlands, áður Ráðstjórnarríkjanna, mál gegn samtökunum og kröfðust þess að ákvarðanir aðalfundar verði ógiltar. Á fundinum, sem haldinn var 26. júní 2022, var tekin ákvörðun um að hætta rekstri félagsins, afhenda allar eignir félagsins sjálfseignarstofnunni „Menningarsjóðnum MÍR“, og að selja húsnæði félagsins að Hverfisgötu en söluandvirðið á að mynda stofnfé umrædds menningarsjóðs.

Hilmar G. Þorsteinsson lögmaður.
Hilmar G. Þorsteinsson lögmaður.

MÍR var stofnað árið 1950 og var Halldór Laxness fyrsti forseti félagsins og Þórbergur Þórðarson varaforseti. Félagið var aðalvettvangur menningarlegra samskipta Íslands og Rússlands um áratugaskeið og var með ýmsa menningardagskrá á blómatíma sínum. Ívar H. Jónsson og kona hans, Ragnhildur Rósa Þórarinsdóttir, standa að stefnunni ásamt listakonunni Kjuregej Alexöndru Argunovu. Ívar var sem kunnugt er formaður MÍR í rúma fjóra áratugi.

MÍR Málið í Héraðsdómi
MÍR Málið í Héraðsdómi mbl.is/Árni Sæberg

„Það er nú komið fram í málinu að félagshúsnæðið er metið á 180 milljónir króna og formaður félagsins vill ráðstafa andvirði þess í nýjan sjóð sem félagsmenn munu ekki hafa neitt forræði yfir, enda mun félagið leggjast af ef áætlanir stjórnarinnar ganga eftir,“ segir Hilmar G. Þorsteinsson, lögmaður stefnenda.

70 ára félag með merka sögu

Hann segir að aðaldeiluefnið í málinu vera fundarboð aðalfundarins. „Einar Daníel Bragason, sem telur sig formann stjórnar félagsins, sagði það fullnægjandi fundarboð að hengja miða í glugga um hásumar þar sem ekkert var fjallað um dagskrá fundarins. Hann gerði ekki neinum félagsmanna viðvart, sem þó voru á póstlista félagsins. Þannig telur hann sér fært að taka ákvörðun um að leggja niður meira en 70 ára gamalt félag með merka sögu, og ráðstafa 180 milljónum króna frá félaginu. … Ég get illa varist þeim grunsemdum að þetta sé gert í eiginhagsmunaskyni,“ segir lögmaðurinn sem segir að meginmarkmið með málaferlunum sé að knýja fram löglegan aðalfund þar sem félagsmönnum gefist tækifæri til að skipa stjórn sem hefur vilja til að vinna að markmiðum félagsins og halda starfsemi þess áfram. Einar hefur hafnað þessum ásökunum eins og kom fram í viðtali við hann í Morgunblaðinu í maí í fyrra.

Hilmar segir að sé gefandi að þjóna málstað fjölda félagsmanna sem láti sér annt um menningarleg tengls Íslands og Rússlands sem séu gömul og merkileg. „Þessir félagsmenn geta ekki hugsað sér að starfseminni verði nú hætt vegna komandi kynslóða. Sérstaklega vil ég nefna aldraða listakonu frá Jakútíu, Kjuregej Alexöndru Argunovu, sem landsmönnum er af góðu kunn og hefur stutt félagið með ráðum og dáð alla sína starfsævi.

Hún gaf félaginu af stórhug mörg af sínum bestu listaverkum, svo þau yrðu varðveitt þar afkomendum hennar og komandi kynslóðum Íslendinga til yndisauka. Hún segist ekki megi til þess hugsa að Einari takist að eyðileggja þetta gamla félag og hvetur allt gott fólk til að koma til bjargar.“

Albaníu-Valdi meðal vitna

Ragnhildur Rósa Þórarinsdóttir gaf skýrslu fyrir dóminum fyrir hönd stefnenda en auk hennar komu allir sjö stjórnarmenn MÍR fyrir réttinn. Þá voru og vitni kölluð til, til að mynda Þorvaldur Þorvaldsson, betur þekktur sem Albaníu-Valdi, og Sigurður Þórarinsson, þekktur ginseng-innflytjandi á fyrri tíð. Ingiríður Lúðvíksdóttir er dómari og má búast við dómi innan fjögurra vikna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert