Einar Þorsteinsson, nýr borgarstjóri Reykvíkinga, óttast ekki að forveri hans, Dagur B. Eggertsson, komi til með að anda ofan í hálsmálið á honum.
„Nei, ég óttast það ekki. Þetta eru skýr skipti, hér er bara einn borgarstjóri! Ég gætti mín á því meðan ég var formaður borgarráðs að stíga ekki fram fyrir Dag og ætlast til að það verði eins núna. Um það ríkir raunar góð sátt,“ segir hann í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Spurður hvort það sé kostur eða galli fyrir hann að hafa Dag áfram í Ráðhúsinu svarar Einar:
„Ég hef verið hérna í átján mánuði og búið mig mjög vel undir það sem beið mín. Ég ber það mikla virðingu fyrir verkefnunum sem mér eru falin að mér þykir eðlilegt að samfella sé í þekkingu og að yfirfærsla verkefnanna frá Degi til mín gangi vel. Að ekki sé hik eða rof í ákvarðanatöku og slíku. En auðvitað er ég ólíkur Degi að mörgu leyti. Hann er nú formaður borgarráðs en hefur líka lýst því yfir að hann sé byrjaður að líta í kringum sig.“
– Gengurðu þá út frá því að hann verði ekki lengi til staðar?
„Það veltur allt á honum sjálfum og ég mun ekki reyna að hafa nein áhrif á það sem hann tekur sér fyrir hendur.“
– En hvernig er ykkar persónulega samband?
„Það hefur verið afar gott. Eins samtalið innan meirihlutans. Við erum alls ekki alltaf sammála enda eru þetta fjórir ólíkir flokkar. Við vinnum hins vegar eftir traustum meirihlutasáttmála, þannig að vinnan er góð.“
Hann segir það hafa verið skynsamlega ákvörðun að búa þannig um hnúta að Dagur héldi áfram sem borgarstjóri fyrstu 18 mánuðina en að hann tæki svo sjálfur við. Starfið sé viðamikið enda mjög mikilvæg stjórnunarstaða, þannig að menn þurfi að vera vel undirbúnir.
„Það hefði verið ábyrgðarlaust að gerast strax borgarstjóri án þess að hafa setið einn dag sem borgarfulltrúi. Mér þykir það vænt um verkefnin hérna í Ráðhúsinu og ber það mikla virðingu fyrir starfi borgarstjóra að mér þótti sjálfsagt mál að kynna mér málin rækilega áður en ég gerði tilkall til þessarar skrifstofu.“
Ítarlega er rætt við hinn nýja borgarstjóra í Sunnudagsblaðinu.