Stórnotendur hafi hvata til að draga úr orku

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku. Ljósmynd/Aðsend

Orka er orðin af skornum skammti hér á landi, segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, og óskilvirkt leyfisveitingakerfi farið að bíta í, bæði hvað varðar virkjanir og flutningskerfi.

Tómas segir að við þær aðstæður sem nú séu uppi sé „skilvirkast að stórnotendur sem noti 80% af orku landsins, hafi hvata til að draga úr notkun þegar þörf krefji“. Þetta hafi verið tillaga starfshóps á vegum orkumálaráðuneytisins árið 2020.

Þekkt frá öðrum löndum

„Þessi leið er þekkt frá öðrum löndum,“ skrifar Tómas. „Undirritaður hefur rekið alþjóðlegt fyrirtæki sem tók þátt í slíku með góðum árangri. Sú leið er samfélagslega hagkvæm því með henni fæst sveigjanleiki sem krefst ekki viðbótarfjárfestinga í virkjunum. Í nýjum samningum við stórnotendur býður HS Orka nú heimild til endursölu við ákveðnar kringumstæður, m.a. til að undirbúa þetta fyrirkomulag. HS Orka leitast líka við að haga samningum þannig að fyrirtækið standi við skyldur sínar í orkuskorti.“

Brýnt að vernda almenning

Hann segir jafnframt að auk þess að tryggja orkuöryggi sé brýnt að vernda allan almennings og smærri fyrirtæki gegn hvers kyns öfgum í verðlagningu á orku.

„Öfugt við það sem Landsvirkjun heldur fram er slík vernd almannahags-muna ekki ósamrýmanleg tilvist virkra markaða. En þá þarf að setja markaðsráðandi aðilum eðlilegar skyldur og skorður. Slíkt er regla frekar en undantekning í flestum löndum sem við berum okkur saman við og nýtist neytendum með því að tryggja eðlilega samkeppni og betri nýtingu á orku,“ skrifar Tómas Már Sigurðsson. Grein hans má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert