Varnargarðarnir við Svartsengi nánast tilbúnir

Unnið að gerð varnargarða á Reykjanesskaga.
Unnið að gerð varnargarða á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að vinna við varnargarðana við Svartsengi og Grindavík sé á fullum krafti.

„Það er verið að klára varnargarðana í kringum Svartsengi. Það á eftir að fylla upp í nokkur skörð og segja má að þeir séu nánast tilbúnir. Það hefur verið vinna sömuleiðis í kringum varnargarðana við Grindavík,“ segir Guðrún við mbl.is.

Von á frumvarpi í byrjun febrúar

Hún segir að enn eigi eftir að taka ákvörðun um hvort halda eigi áfram með þá.

„Ég geri það ekki. Það mun koma ósk frá ríkislögreglustjóra um það verkefni og ég mun svo taka afstöðu til þess en ríkislögreglustjóri og almannavarnir halda utan um það verkefni,“ segir Guðrún við mbl.is.

Húsnæðismálin hafa brunnið á Grindvíkingum og spurð út í næstu skref ríkisstjórnarinnar varðandi þau mál segir Guðrún:

„Það voru kynntar aðgerðir fyrir Grindvíkinga í vikunni og það á eftir að fara í endanlega útfærslu á því. Fjármálaráðherra kynnti að hún myndi leggja fram frumvarp þess efnis í byrjun febrúar.“

Ekki hægt að segja til um búsetu af eða á

Ráðherra segir að uppleggið hafi verið að gefa Grindvíkingum þann möguleika að ríkið myndi borga út eigið fé þeirra í eignum sínum sem þeir gætu nýtt til kaupa á eigin húsnæði annars staðar.

Hún segir að eftir eigi að útfæra þetta og taka ákvörðun um hvernig eigi að meta eignirnar.

„Það er verið að horfa til þess að Grindvíkingar verði áfram eigendur að eignum sínum meðan þessi mikli óvissutími er í gangi. Það er erfitt að sjá inn í þessa framtíð og það er ekki hægt að segja til um búsetu, af eða á, á meðan ekki er búið að ljúka þessari jarðvegsvinnu. Við vitum ekki hvenær jörðin ætlar að róa sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert