ASÍ vill að Heimkaup finni sér nýtt nafn

Halldór Oddsson lögfræðingur ASÍ.
Halldór Oddsson lögfræðingur ASÍ. mbl.is/Unnur Karen

Alþýðusamband Íslands hefur sent inn umsókn um einkarétt á nafninu Prís til Hugverkastofu. Svo vill til að Heimkaup hefur gert slíkt hið sama en hugmyndin er sú að ný lágvöruverslun á vegum fyrirtækisins muni bera nafnið ef miðað er við umsókn um einkarétt á vörumerkinu til stofnunarinnar.  

Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ, segir að sambandið hafi sent inn umsókn til Hugverkastofu um að fá einkarétt á orðinu eða orðmerkingunni. „Þetta er að einhverju leyti viðbrögð við umsókn Heimkaupa sem kom okkur verulega spánskt fyrir sjónir,“ segir Halldór.

Telur óumdeilanlegt að ASÍ hafi verið á undan

Heimkaup sótti um einkarétt á vörumerkinu Prís daginn eftir að ASÍ kynnti app sitt en það var tekið í notkun 20. og 21. desember. ASÍ sótti hins vegar um á dögunum eftir að fregnir bárust af því á mbl.is að Heimkaup hygðist fá einkarétt að vörumerkinu.   

Halldór segir að í sínum huga sé það óumdeilanlegt að app þeirra, sem hefur það hlutverk að fylgjast með verðlagi og ber nafnið Prís, hafi verið tekið í notkun á undan. Þar af leiðandi á hann von á því að ASÍ fái réttinn frá Hugverkastofu. Hann segir að tugþúsundir hafi þegar sótt sér app þeirra.

Gefum okkur óhappatilviljun 

„Hvernig sem það kom til að einhver skörun varð til við einhverja fyrirætlun hjá Heimkaup að nota slíkt merki þá teljum við að okkar staða sé töluvert sterk varðandi vörumerkið. Við gefum okkur að þetta sé einhver óhappatilviljun hjá Heimkaupum og ég held að það liggi fyrir að Heimkaup þurfi að finna sér nýtt nafn,“ segir Halldór.

ASÍ hefur sett sig í samband við Heimkaup ti þess að finna lendingu í málinu. „Við ætlum að ræða við Heimkaup og ég sé ekki annað en að það finnist farsæl lausn á því,“ segir Halldór. 

Sú staða er komin upp að Heimkaup og ASÍ vilja …
Sú staða er komin upp að Heimkaup og ASÍ vilja bæði fá einkarétt á nafninu Prís.

Hafa ekki áhuga á stríði 

Þegar þetta er skrifað höfðu ekki borist viðbrögð frá Heimkaupum. „Við höfum ekki áhuga á því að fara í stríð við þá og ég held að þeir hafi engan hag af því að fara í stríð við okkur um eitthvað vörumerki. Ég hef enga trú á öðru en að þetta muni leysast með einhverju stuttu spjalli við þá,“ segir Halldór. 

Kemur ekki til greina hjá ykkur að breyta um nafn?

„Það er ekki svo einfalt úr þessu og kemur í rauninni ekki til greina. Það er engum blöðum um það að fletta að við hófum notkunina. Það má sjá með einföldu gúgli og það er varla hægt að álykta annað en að þau fari af stað og sæki um hjá Hugverkastofu þegar þetta berst í fréttirnar,“ segir Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert