Bætir í vind í flestum landshlutum

Finna má allhvassa vestanátt í flestum landshlutum í kvöld.
Finna má allhvassa vestanátt í flestum landshlutum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Framan af degi er útlit fyrir að vindur verði hægari á landinu en hann hefur verið undanfarið. Áfram má búast við éljum á vesturhelmingi landsins.

Fyrir austan land er nú lægð á hraðferð til norðurs og austanvert landið er undir jaðrinum á úrkomukerfi þessarar lægðar og því snjóar þar, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Síðdegis verður þessi lægð úr sögunni og þá léttir til austanlands. Þá fer hins vegar að bæta í vind heilt yfir og má finna allhvassa vestanátt í flestum landshlutum í kvöld. Þar sem fara saman éljabakkar og slíkur vindhraði, eru akstursskilyrði fljót að versna til muna.

Hiti um eða yfir frostmarki á morgun

Á morgun er sunnanátt í kortunum og má búast við að stinningskaldi eða allhvass vindur verði algengur. Það berst heldur hlýrri loftmassi yfir og úrkoman verður þá á mismunandi formi. Víðast hvar verður hún snjókoma eða slydda, en rigning með suðurströndinni og í öllum suðausturfjórðungi landsins.

Hins vegar er útlit fyrir litla eða enga úrkomu norðaustantil á landinu. Hiti á morgun verður um eða yfir frostmarki.

Á þriðjudag snýst síðan aftur í suðvestanátt með éljagangi, en bjartviðri í norðausturfjórðungi landins. Frystir um allt land.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert