Íbúar í Grindavík munu á næstu dögum fá þrjár klukkustundir til að vera inni í bænum að vitja eigna sinna. Gert er ráð fyrir að íbúar um 300 heimila geti verið í bænum í einu.
Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar, sviðsstjóra almannavarna, á upplýsingafundi í dag. Allir munu fá jöfn tækifæri til að vitja eigna sinna á næstu dögum. Tíminn sem íbúar fá í næsta skipti verður þó töluvert lengri.
Hægt verður að fara inn á 150 heimili fyrir hádegi og 150 eftir hádegi dag hvern. Um 70 manns verða við eftirlit og gæslu í bænum á meðan fólki verður hleypt þangað inn.
Íbúar og prókúruhafar fyrirtækja þurfa að skrá sig á Ísland.is. Þeir munu í kjölfarið fá senda QR-kóða sem nota þarf til að skrá sig inn og út úr bænum. Íbúar munu fyrst um sinn geta skráð sig 14 daga fram í tímann.
Farið verður í aðgerðirnar á morgun, að sögn Víðis.
Staðan í Grindavík er sú að ekkert kalt vatn er í bænum, skólplagnir eru hugsanlega skemmdar víða og þá er hitaveitan gríðarlega löskuð.
Víðir segir mjög mikilvægt að íbúar breyti ekki hitastillingum sem búið er að setja í húsum bæjarins. Slíkt geti haft alvarlegar afleiðingar á kerfið. Hitastigið nær víða ekki tveggja stafa tölu innanhúss.
Þar sem ekkert kalt vatn er í bænum verður ekki hægt að nota salerni en Víðir segir að færanleg salerni verði við verslun Nettó á Víkurbraut.
Þegar komið er inn í bæinn skulu íbúar keyra að sínu húsi og fara beint inn. Ekki er ætlast til að íbúar fari um bæinn vegna hættunnar sem þar er.
Víða eru opnir skurðir þar sem unnið er að viðgerðum og mikið af sprungum sem ekki er búið að loka en reynt hefur verið að girða af.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði bæinn mjög laskaðan.