Mengaðar oxycontin-töflur gætu verið komnar til Íslands

Ábendingar hafa borist um að verið sé að selja mengaðar …
Ábendingar hafa borist um að verið sé að selja mengaðar oxycontin-töflur. Ljósmynd/The Pain Classroom

Fyrirtækið Varlega.is hefur fengið ábendingar um mengaðar oxycontin-töflur í umferð hér á landi.

Bent er á þetta á Instagram-reikningi fyrirtækisins.

Varlega.is flytur inn og selur vímuefnapróf. 

Innihalda eitthvað annað og hættulegra

Kristinn Ingvarsson, annar stofnenda Varlega.is, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða eina ábendingu sem barst til þeirra: 

„En hún var þess efnis að það væri frekar mikið um þessar viðvaranir á Telegram.“

Í færslunni segir að fyrirtækinu hafi borist ábendingar um að verið sé að vara við menguðum töflum á miðlum eins og Telegram. 

Töflurnar líta út eins og oxycontin-töflur en innihalda „eitthvað annað og hættulegra efni“ segir í færslunni.

Myndir fylgja færslunni og ein þeirra sýnir smáskilaboð, þar sem verið er að vara við menguðu töflunum og þau sögð innihalda fentanýl.

View this post on Instagram

A post shared by Varlega.is (@varlega.is)

Bjóða skaðaminnkandi úrræði fyrir og eftir 

Kristinn bendir á að fentanýl-blandaðar oxycontin-töflur þekkist erlendis og þá sérstaklega í Bandaríkjunum:

„Þá er spurning hvort þetta sé komið til Íslands, en ég hef auðvitað enga staðfestingu á því.“

Hann segir að lokum að Varlega.is bjóði upp á skaðaminnkandi úrræði bæði fyrir og eftir neyslu á menguðum töflum af þessu tagi og nefnir í því samhengi fentanýl-strimla sem geta mælt fyrir lyfinu og nefúðann Naloxón sem er notaður við ofskömmtun ópíóða. 

„Þetta eru svona tvær hliðar á teningnum, að taka fyrirbyggjandi skrefið og mæla fyrir efninu, og hin hliðin að ef um neyðartilfelli sé að ræða að geta þá brugðist við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert