„Það eru sviptingar í veðrinu og það er útlit fyrir því að það komi enn einn éljabakkinn inn á landið í kvöld. Akstursskilyrðin gætu versnað hratt og þá sérstaklega á fjallvegum.“
Þetta segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku, við mbl.is.
„Það er éljagarður fyrir sunnan landið og hann kemur inn á land í kvöld með snjókomu en í tiltölulega hægum vindi eins og verið hefur í dag. Undir miðnætti fer aðeins að blása úr suðvestri og það gæti orðið töluverður skafrenningur í nótt og þá sérstaklega á fjallvegum á leiðinni norður og vestur í land og eins fyrir austan,“ segir Einar og bætir við að það ætti að sleppa betur til á Hellisheiðinni.
Gæti færðin spillst á höfuðborgarsvæðinu seint í kvöld og í nótt?
„Það er kominn talsvert mikill snjór á höfuðborgarsvæðinu og það má lítið út af bregða. Það góða upp á það að gera er að á eftir bakkanum í þessari suðvestanátt þá hlýnar aðeins og snjóinn ætti að binda eitthvað niður, sérstaklega á láglendi. Það verður ábyggilega dálítill hitamunur og kaldara í efri byggðum sem gæti skapað erfiðari færð þar og á Sandskeiði,“ segir Einar.
Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar úti á landi hættir klukkan 22 en það er þjónusta allan sólarhringinn suðvestanlands þar sem Reykjanesbrautin og Hellisheiðin eru undir.
„Það gæti því orðið eitthvað vesen á fjallvegunum og ég hvet fólk til þess að vera ekki seint á ferðinni. Það er aldrei gott á þessum árstíma að vera mikið að þvælast úti í umferðinni á nóttunni eftir að vetrarþjónustunni lýkur. Það er vonandi að fólk verði komið í hús áður en það fer að skafa í kvöld.“
Einar segir að áframhald verði á éljagangi í vikunni í suðvestan og vestan átt. Hann segir að það hláni aðeins á morgun, sérstaklega sunnan- og vestanlands.
„Það er varla hægt að tala um þetta sem þíðu. Það blotar aðeins en það verður engin leysing. Það verður éljagangur næstu dagana. Það er meiri óvissa með framhaldið en ætli það endi ekki í norðanátt um komandi helgi.“